Stöðva þarf auðsöfnun fárra

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er merkilegt að skoða kannanir núna. Sjálfstæðisflokkurinn dálítið sér á parti, en síðan eru hinir flokkarnir hnífjafnir og fastir í sömu stöðu, þannig að ég held að þetta verði spennandi síðasta vika,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali við Dagmál.

„Við erum í kringum kjörfylgi [12%] og við ætlum okkur meira en það. Það getur eitthvað gerst. Maður heyrir að tilhneigingin sé sú að 30-40% fólks taki afstöðu í síðustu viku og helmingurinn af þeim síðasta daginn. Þetta staðfestist í samtölum við fólk, það er gjarnan að velta fyrir sér tveimur kostum. Þá er bara að hvetja fólk til að leggjast yfir þá kosti og velta fyrir sér hvor sé líklegri til þess að standa við loforðin og hvernig á að fjármagna þau,“ segir hann.

Þegar maður les yfir stefnuna, eins og þið setjið hana fram á vefnum, þá er hún ákaflega almennt orðuð. Hvernig aðgreinið þið ykkur frá öðrum framboðum?

„Auðvitað eru ákveðin mál í brennidepli hjá mörgum flokkum. En þá þarf kjósandinn líka að leggja mat á það hvernig flokkarnir ætla að fjármagna þessi loforð sín. Þegar við settum þessar áherslur saman í vor, þá settum við okkur það markmið að fara ekki í loforðakapphlaup – jafnvel við flokka sem ætla sér ekkert endilega í ríkisstjórn, heldur að vera hávært stjórnarandstöðuafl – tefla fram raunsæjum hugmyndum. Við erum með yfirmarkmið til lengri tíma, en svo erum við með aðgerðir sem við teljum að sé hægt að ráðast í á næstu fjórum árum.

Fjármögnunin skiptir máli

Við einsettum okkur líka að vera bara heiðarleg með það hvernig við ætluðum að fjármagna þessi loforð, af því mér finnst það skorta hjá ýmsum öðrum flokkum. Það vantar ekki gylliboðin, en það er fugl í skógi, ekki í hendi.“

Geturðu nefnt dæmi um gylliboð?

„Það eru margir á sömu slóðum varðandi eldri borgara og öryrkja, ganga jafnvel lengra en við, en þetta er ekkert fjármagnað.

Það hefur orðið svo mikil kjaragliðnun milli okkar launafólks og þessara tveggja hópa, eldri borgara og öryrkja, að það þarf að vinda ofan af því. Ég held að flestir flokkar skilji það. En þetta hefur gengið svo lengi, að það þarf að gera það í hófsömum en róttækum skrefum.

Við stefnum að því að í fyllingu tímans verði grunnlífeyrir öryrkja og eldra fólks til jafns við lágmarkslaun. Og að það verði tengt með þeim hætti að það verði ekki aftur þessi kjaragliðnun. Ég vek athygli á að 1. janúar 2022, þegar lífskjarasamningarnir hafa að fullu tekið gildi, þá mun muna 86 þúsund krónum á þessum grunnlífeyri og lágmarkstekjutengingu.

Það sama varðar skerðingarnar á lífeyrinum og atvinnutekjunum, sem taka út yfir allan þjófabálk, fyrir nú utan það hvað það er heimskulegt. Það er enginn hvati í kerfinu, það er enginn hvati fyrir öryrki að vinna 20-30% vinnu, af því að hann hefur ekkert upp úr því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert