Engin þriggja flokka ríkisstjórn er í boði að loknum kosningum, fari þær líkt og þingsætaspá Morgunblaðsins segir fyrir um, en hún er gerð á grundvelli þriggja síðustu kannana MMR í samræmi við reiknireglur landskjörstjórnar. Þar kemur Framsóknarflokkur við sögu í 13 stjórnum af 15, Vinstri-græn hafa 12 kosti, Viðreisn 10, en Sjálfstæðisflokkur sjö líkt og Samfylkingin.
Hins vegar eru sjö 4-flokka ríkisstjórnir mögulegar og átta 5-flokka stjórnir. Þar fyrir utan eru vitaskuld fleiri ríkisstjórnarmynstur fleiri flokka möguleg, en almennt verður að telja líklegt að ekki verði mynduð stjórn fleiri flokka en þarf til að halda meirihluta á þingi.
Eins og sjá má að ofan eru það margbreytilegar ríkisstjórnir, en mjög mislíklegar. Þar kann málefnastaða og persónuleg afstaða forystumanna að skipta máli, en svo þarf einnig að líta til þess hvers menn treysta sér til. Í fjögurra flokka ríkisstjórn eru núningsfletirnir fleiri en í þriggja flokka stjórn og því ráðlegt að vera með rúman meirihluta. Eins mun þurfa mikið traust á milli flokka til þess að mynda stjórn með 32 manna meirihluta, því slík stjórn gæti lent í gíslingu hvaða stjórnarþingmanns sem væri. Líklegt má því telja að menn reyni að mynda ríkisstjórn með ekki færri en 33 manna meirihluta og helst ögn traustari.
Því er ekki ólíklegt að fyrst verði horft til stjórna eins og þeirra, sem eru í efstu röð hér að ofan, en þær eru allar 4-flokka og með rúman meirihluta. Þær eiga það einnig allar sameiginlegt að hafa Sjálfstæðisflokk og Framsókn innanborðs, en segja má að þeir séu burðarflokkar mögulegs ríkisstjórnarsamstarfs, hvað sem annars úr verður.
Hins vegar má vel vera að meiri áhugi reynist á vinstristjórn þó að hún þurfi að vera fimm flokka og mögulega brothættari fyrir vikið. Þær eiga það allar sameiginlegt að þurfa að reiða sig á Framsókn, en tveir framsóknarráðherrar hafa raunar gefið til kynna að þeim sé vinstrasamstarf ekki á móti skapi. Margar innihalda einnig Viðreisn, en sagt er að framsóknarmönnum myndi líða betur í vinstristjórn með annan miðjuflokk með sér. Sömuleiðis segja þeir sumir að Píratar eða Sósíalistar séu ekki fyrsta val þeirra um samstarfsflokka, en það viðhorf má raunar heyra víðar, meðal annars hjá Vinstri-grænum.
Hins vegar er rétt að hafa í huga að þingsætaspáin að ofan er ekki meitluð í stein. Smávægilegar fylgisbreytingar geta haft mikil áhrif. Þannig þurfa stjórnarflokkarnir ekki mikið að bæta við sig til þess að halda velli, en eins þarf ekki mikið að breytast til þess að Framsókn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur geti myndað stjórn.