„Miðað við þá stefnu sem Þorgerður lýsir á vettvangi Viðreisnar, eru eitthvað meiri líkur á að þið setjist í ríkisstjórn með þeim heldur en Sjálfstæðisflokknum?“
Þannig spurði Stefán Einar Stefánsson formann Samfylkingarinnar, Loga Einarsson, eftir að hann taldi upp ástæður þess að flokkurinn hefur ákveðið að útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum á næsta kjörtímabili.
„Það er svo margt sem sameinar okkur Þorgerði Katrínu. Margt sem að við getum sameinast um,“ svaraði Logi og neitaði því að nokkuð yrði gefið eftir í skattaloforðum Samfylkingarinnar.
Logi var gestur í Dagmálum þar sem forsvarsmenn stjórnmálaflokka ræddu stöðuna fyrir komandi þingkosningar. Fóru umræðurnar fram í höfuðstöðvum Morgunblaðsins við Hádegismóa í Reykjavík.
„Ég er sammála um það að þegar við setjumst niður og förum að mynda stjórn eftir kosningarnar, þú tekur eftir því að það verður eftir kosningar en ekki í þessum þætti, þá munum við örugglega ná saman með öðrum flokkum,“ bætti Logi við.