Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir faraldur kórónuveiru hafa „tekið stjórnmálin úr sambandi“ hér á landi. Segir hann þetta sambandsleysi og skortur á pólitískri umræðu hafa hentað ríkisstjórninni ágætlega. „Um leið og faraldurinn hófst þá rauk fylgi ríkisstjórnarinnar upp og fylgi okkar byrjaði að dala. Segir sína sögu. Því minna sem rætt er um stjórnmál þeim mun verra fyrir okkur og betra fyrir þessa ríkisstjórn,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann var gestur í Dagmálum þar sem forsvarsmenn stjórnmálaflokka ræddu stöðuna fyrir komandi þingkosningar. Fóru umræðurnar fram í höfuðstöðvum Morgunblaðsins við Hádegismóa í Reykjavík.
Sigmundur Davíð segist nú óttast að kjósendur gangi að kjörborði án mikillar umræðu um framtíðina, grundvallargildi samfélagsins og lausnir á hinum ýmsu vandamálum. „Menn í óhóflegu mæli gætu hugsanlega tekið ákvörðun út frá einhverri ímynd. Það er ekki gott upp á framtíðina að gera,“ segir hann og bætir við að afar mikilvægt sé nú að ræða lausnir, þ.e. hvað virkar og hvað ekki.
Formaðurinn var spurður hvort áherslumál flokksins eigi erindi við kjósendur nú. Var þá meðal annars vísað til áherslna þeirra um fullveldi Íslands og orkupakka. „Við teljum okkur vera að gera það sem er rétt. Mikilvægi fullveldisins er ekkert minna nú en áður. Þó umræðan sé á víð og dreif og stundum takmörkuð. Ég er ekki í pólitík til þess að kasta einhverju fram sem getur gripið athyglina í smá tíma eða í þessari endalausu ímyndarvinnu sem allt virðist snúast um hjá öðrum. Ég er í pólitík af því ég raunverulega trúi á það sem ég er að boða.“
Þá segist Sigmundur Davíð trúa því að kjósendur kunni að meta stefnufestu stjórnmálaflokka og -manna.
Umræðuþáttur Dagmála við forsvarsmenn stjórnmálaflokka er í tveimur hlutum hér á mbl.is og má nálgast viðtalið við Sigmund Davíð í heild sinni í seinni hluta þáttarins.