„Lítill ævisparnaður“ Gunnars 600 milljónir í dag

Virði eigna Gunnars Smára Egilssonar sósíalistaforingja, í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Dagsbrún, voru um 600 milljónir væru þær núvirtar, samkvæmt yfirlýsingu hans til Kauphallar Íslands frá því fyrir hrun. 

Gunnar Smári kannaðist ekki við að hafa átt hlut að slíkri stærð í Dagsbrún, spurður út í tilkynninguna í fyrra pallborði formanna stjórnmálaflokkanna í Dagmálum.

Sagðist ekki hafa tekið út kaupréttinn

Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, fór yfir það að tilkynningin væri um að Gunnar væri að innleysa bréfin sem hann átti rétt á. 

Gunnar neitaði í þættinum fyrir að hafa tekið þátt í uppganginum í fjármálageiranum fyrir hrun. Hann hafi einungis „átt smá hlut í Fréttablaðinu“ og „átt lítinn ævisparnað þarna inni“ og aldrei hafa tekið út kaupréttinn sinn.

Auk bréfanna sem Andrés spurði út í voru laun Gunnars sem forstjóra fyrirtækisins 5,1 milljón á mánuði árið 2005, á núverandi verðlagi, og rúmar 7 milljónir króna á mánuði árið 2006 að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Átt hlutabréf í bönkunum

Þar segir sömuleiðis að í árslok 2005 hafi félag í eigu Gunnars og eiginkonu hans átt hlutabréf í Kaupþingi banka fyrir 31 milljón króna og 4,2 milljónir króna í Landsbanka Íslands, miðað við virði dagsins í dag. 

„Í árslok 2006 átti félagið hlutabréf í Kaupþingi banka fyrir 30 milljónir króna og 4,1 milljón króna í Landsbanka Íslands, í Bakkavör fyrir 10,3 milljónir króna, í Eimskipafélaginu fyrir 500 þúsund krónur og í Exista fyrir 1,8 milljónir króna,“ segir í Viðskiptablaðinu, sem setur tölurnar fram núvirtar.

Horfa má á umræður álitsgjafa um þáttinn hér: 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert