Ef allir Íslendingar tækju sig saman um að kjósa ekki í Alþingiskosningum og enginn fengist til þess að bjóða sig fram til slíkra kosninga, má segja að lýðveldið Ísland lognaðist út af.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju svari Hafsteins Þórs Haukssonar, dósents í almennri lögfræði og stjórnskipunarrétti, á Vísindavefnum.
Spurt var: „Hvað í raun myndi gerast ef öll þjóðin á sama tíma fengi bara þá hugmynd að kjósa ekki? Myndi alþingið bara hætta?“
Hafsteinn svarar því að líta þurfi til stjórnskipunarlaga, sem eru þær lagareglur sem fjalla um æstu handhöfn ríkisvalds, hvort sem er framkvæmda-, löggjafar- eða dómsvalds. Þar að auki telur Hafsteinn til stjórnarskrá Íslands, og þær reglur um stjórnskipan er byggja á réttarvenjum og óskráðum meginreglum.
„Það er skemmst frá því að segja að í framangreindum reglum er ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að sú staða komi upp að enginn greiði atkvæði í kosningum til Alþingis. Það er því engum ákvæðum fyrir að fara sem fjalla beinlínis um hvað gera skuli við slíkar aðstæður. Hér væri því sannarlega komin upp stjórnskipunarkrísa,“ segir Hafsteinn í svari sínu.
Því næst minnist Hafsteinn á stjórnskipulegan neyðarrétt, sem ákveðnar aðstæður geta kallað á að verði beitt. Til beitinga þess ákvæðis kom t.d. í síðari heimsstyrjöldinni, þegar Þjóðverjar réðust inn í Danmörku og Bretar hernámu Íslands. Var þá talið að danski konungurinn gæti ekki sinnt stjórnskipulegum verkefnum sínum hér á landi og var ráðuneyti Íslands fyrst falið konungsvald áður en það var fært til þingkjörins ríkisstjóra.
Hafsteinn segir að stjórnskipulegur neyðarréttur verði ávallt að taka mið af því neyðarástandi sem ríkir hverju sinni. Þannig sé líklegt að til einhvers konar beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar ef upp kæmi sú staða að enginn greiddi atkvæði í þingkosningum, ekki einu sinni frambjóðendurnir sjálfir.
Hafsteinn segir þó að Alþingi myndi ekki lognast út af við slíkar aðstæður, að því gefnu að stjórnkerfið sé virkt að öðru leyti. Hann setur fram tvær leiðir, sem hugsanlegt er að íslenskt stjórnkerfi færi.
„Önnur leiðin væri að boða til nýrra kosninga, svokallaðra uppkosninga, samanber til dæmis XVIII. kafla kosningalaga en þau ákvæði taka til þess þegar kosning ferst fyrir á hinum ákveðna kjördegi vegna óviðráðanlegra aðstæðna, svo sem vegna óveðurs.“
Hin leiðin, sem Hafsteinn telur til, væri að varpa hlutkesti um niðurstöðu kosninganna, eins og 110. grein kosningalaga kveður á um að skuli gert ef tveir eða fleiri frambjóðendur fá fleiri atkvæði.
Hafsteinn segir þó að stjórnarskráin geri ráð fyrir því að forseti Íslands geti gefið út bráðabirgðarlög, með atbeina ráðherra, þegar Alþingi er ekki að störfum.
Þannig myndi framkvæmdarvaldið taka yfir hluta löggjafarvaldsins á meðan krísunni stæði, a.m.k. í brýnustu efnum.
Í lok svars síns á Vísindavefnum, veltir Hafsteinn fyrir því hvað myndi gerast ef aðstæðurnar gengju lengra og enginn kysi í Alþingiskosningum til frambúðar. Hann segir að lýðveldið Ísland myndi hreinlega lognast út af.
„Ef við höldum hins vegar áfram með pælingu fyrirspyrjandans og ímyndum okkur að til frambúðar yrði af einhverjum sökum enginn fáanlegur til þess að bjóða sig fram til þingsetu og/eða enginn nýtti kosningaréttinn væri ein meginstoð stjórnskipunar okkar - það er það lýðræðisfyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í stjórnarskránni - brostin og lýðveldið Ísland fallið. Stjórnskipunarrétturinn veitir ekki svör við því hvaða stjórnskipulag, ef eitthvað, tæki við í framhaldinu,“ segir Hafsteinn.