Ríkisstjórnin gæti haldið

Sam­kvæmt nýrri fylg­is­könn­un stjórn­mála­flokka, sem MMR gerði í sam­starfi við Morg­un­blaðið, eru Fram­sókn og Sjálf­stæðis­flokk­ur enn í sókn líkt og í fyrri könn­un MMR í vik­unni. Aft­ur á móti hafa Vinstri græn dalað frek­ar og miðað við það og þing­sæta­út­reikn­inga kann rík­is­stjórn­in að vera naum­lega fall­in með 31 þing­mann sam­tals. Afar litl­ar fylg­is­breyt­ing­ar þarf þó til að rík­is­stjórn­in haldi með 32 eða 33 mönn­um og fyr­ir­sjá­an­legt að kosn­ing­a­nótt­in verður ákaf­lega spenn­andi.

Miðju­hægri­flokk­ar sækja á, en vinstrið dal­ar

Ef litið er á fylg­is­hreyf­ing­ar í þess­ari viku er greini­legt að Fram­sókn, Viðreisn og Sjálf­stæðis­flokk­ur eru að sækja í sig veðrið á loka­sprett­in­um með frek­ar af­ger­andi hætti, en herslumun­inn vant­ar til þess að stjórn­ar­flokk­arn­ir haldi velli. Þar mun­ar mest um að vinstri­flokk­arn­ir hafa tekið að dala á ný og er fylgi þeirra frek­ar að fletj­ast út. Sam­fylk­ing­in hef­ur þannig tapað mest­allri fylgisaukn­ingu liðinna vikna. Hlut­falls­lega hef­ur Sósí­al­ista­flokk­ur­inn þó tapað mestu fylgi frá því í liðinni viku, þegar hann var með hátt í 9% en er nú við 5% fylgi.

Fylgi Flokks fólks­ins hef­ur hins veg­ar styrkst tals­vert og sömu­leiðis virðist Miðflokk­ur­inn vera að treysta sig, þó hann sé eng­inn há­stökkvari.

Rík­is­stjórn­ar­mynd­un örðug

Miðað við þing­sæta­spá, sem byggð er á niður­stöðum þriggja síðustu kann­ana, get­ur reynst snúið að mynda rík­is­stjórn að kosn­ing­um lokn­um. 14 kost­ir eru í boði. Þar kem­ur Fram­sókn að borðinu í öll­um til­vik­um nema einu og Viðreisn og/​eða Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í öll­um fjög­urra flokka stjórn­um. Hins veg­ar mætti mynda eina þriggja flokka stjórn með naum­asta meiri­hluta, stjórn Fram­sókn­ar, Viðreisn­ar og Sjálf­stæðis­flokks. Ósenni­legt verður þó að telja að flokk­arn­ir hætti á svo tæp­an meiri­hluta.

Marg­brotið fylgi flokka

Þegar rýnt er í niður­stöður skoðanakann­ana MMR og niður­brot þeirra eft­ir kyni, aldri, kjör­dæm­um, mennt­un, tekj­um og af­stöðu til rík­is­stjórn­ar­inn­ar, má glöggt greina hvernig hin ýmsu fram­boð höfða mjög mis­jafn­lega til ein­stakra hópa kjós­enda.

Efst á síðunni má þannig sjá hversu mis­vel flokk­arn­ir standa í ein­stök­um kjör­dæm­um lands­ins og einnig breiðari skír­skot­un, þar sem sum­ir eiga greini­lega mest­an stuðning á höfuðborg­ar­svæðinu en aðrir frem­ur á lands­byggðinni.

Ekki kem­ur á óvart að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn á meira fylgi að fagna á lands­byggðinni, það er göm­ul saga, en hins veg­ar telst til tíðinda hversu mikið for­skot hann hef­ur í Norðaust­ur­kjör­dæmi og kannski enn frek­ar í Suður­kjör­dæmi þar sem hann hef­ur tekið fram úr Sjálf­stæðis­flokkn­um.

Það er líka áber­andi hvað flokk­ar sækja mis­mikið í ald­urs­hópa. Sum­ir flokk­ar eiga þannig tals­vert meira fylgi hjá ung­um kjós­end­um, sem erfa eiga landið, en á hinn bóg­inn er reynsl­an sú að þeir noti kosn­inga­rétt­inn síður en þeir sem eldri eru.

Oft er talað um að elsta kyn­slóðin sé einnig trygg­ustu kjós­end­urn­ir, hún fari og kjósi hvað sem tauti og rauli. Hjá fólki 68 ára og eldra er fjór­flokk­ur­inn gamli í góðu gildi, en nýrri fram­boð eiga ekki upp á pall­borðið. Í þann hóp sæk­ir Sam­fylk­ing­in mun meira fylgi en hjá hinum og það kann að skipta miklu þegar talið er upp úr köss­un­um.

Aug­ljóst er að Flokk­ur fólks­ins sæk­ir miklu frek­ar fylgi í elsta hóp­inn en hina, en hið sama á við þegar litið er til tekjuminnsta hóps­ins og þess sem er með minnsta mennt­un. Það á ekki að koma á óvart þegar horft er til kosn­inga­áherslna flokks­ins.

Senni­lega er það þó hversu mis­mikið flokk­arn­ir sækja fylgi eft­ir kynj­um, sem mesta at­hygli ætti að vekja. Og um­hugs­un ein­stakra flokka, bæði þeirra sem einkum virðast höfða til kvenna eða mun frek­ar til karla.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka