Alls hafði 49.371 greitt atkvæði utan kjörfundar í alþingiskosningunum þegar kjörstöðum var lokað í gær, eða 19,3% kosningabærra manna. Þar af höfðu 34.779 manns greitt atkvæði á höfuðborgarsvæðinu. Kjörsókn utan kjörfundar er mun betri í ár en í alþingiskosningunum árið 2017, en þá greiddu samtals um 39.000 manns atkvæði utan kjörfundar eða 15,7% kosningabærra manna.
Það verður ekki blessuð blíðan í dag, að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur veðurfræðings, en í dag er spáð 3-7 gráðu hita og 4 m/s á höfuðborgarsvæðinu. Þá bætir í vindinn seinni partinn. Spáin er skárri en fyrst var gert ráð fyrir og sagði Birta um veðrið í samtali við mbl.is í gær: „Þótt það verði ekki blessuð blíðan verður þetta engin eymd og volæði.“
Von er á smávegis slyddu á Vestfjörðum, slydduéljum og rigningu sunnantil með suðurströndinni en ekki er víst að élin nái inn á höfuðborgarsvæðið. Þegar líða tekur á daginn fer að hvessa og er spáð stormi norðvestantil og aukinni úrkomu.