Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telja báðir eðlilegt að þeir setjist niður með Vinstri grænum um áframhald sömu ríkisstjórnar fyrir næsta kjörtímabil.
Bjarni sagði í þættinum Sprengisandi á Stöð 2 niðurstöðu kosninganna vera skýra. Stuðningur við ríkisstjórnina sé mikill og að honum þætti „eðlilegt að flokkar sem hafa starfað saman í fjögur ár og átt ágætis persónuleg samskipti” láti reyna á áframhaldandi samstarf.
Spurður hvort gott gengi Framsóknarflokkskins og slakara gengi Vinstri grænna muni hafa áhrif sagði Bjarni það hafa áhrif inn í samtalið með einhverjum hætti. Sömuleiðis sagði Bjarni það slæmt að missa Brynjar Níelsson af þingi.
Sigurður Ingi tók undir með Bjarna varðandi framhaldið og sagði eðlilegast að þessir þrír flokkar settust niður og ræddu málin.
Hann sagði Framsóknarflokkinn vera orðið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum á nýjan leik. Þetta hafi verið draumur hans lengi og að hann sé gríðarlega stoltur.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kvaðst jafnframt reikna með því að stjórnarflokkarnir þrír setjist niður og skoði framhaldið, miðað við úrslit kosninganna.