„Sjáum hvernig nóttin brosir við okkur“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í kosningasjónvarpi Stöðvar 2.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í kosningasjónvarpi Stöðvar 2. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Sæland var uppfull af þakklæti og gleði þegar mbl.is náði tali af henni í þann mund sem tölur úr Reykjavíkurkjördæmi suður birtust en flokkurinn hefur bætt við sig verulegu fylgi utan höfuðborgarsvæðisins.

„Það eru miklar gleðifréttir, ég er alveg ofboðslega þakklát fyrir allt þetta traust sem er verið að sýna mér og Flokki fólksins. Það er bara alveg dásamlegt.“

Hvað heldur þú að skýri þetta aukna fylgi?

„Ég tel að fólk sjái að í okkur býr þessi von, þessi barátta um að útrýma fátækt, við erum sönn í því sem við erum að segja og við meinum hvert einasta orð. Ég skynja það bara að fólk veit að við leggjum hjartað í það sem við erum að gera.“

Hún segir erfitt að spá fyrir um framtíðina að svo stöddu: „Við erum enn þá að sjá fyrstu tölur, eigum við ekki að sjá hvernig nóttin brosir við okkur.“

Flokkur fólksins heldur kosningavöku í Grafarvogi en Inga segist ætla að fylgjast grannt með tölunum þar langt fram á nótt: „Eins og staðan er núna erum við bara ofboðslega þakklát og full af baráttuanda og mikilli gleði.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert