Margir kallaðir en fáir útvaldir

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt­hvað var um sím­hring­ing­ar milli rík­is­stjórn­ar­flokk­anna í gær, en eig­in­leg­ar þreif­ing­ar um fram­hald á stjórn­ar­sam­starf­inu eru ekki hafn­ar. Velflest­ir nýbakaðir þing­menn reyndu að sofa út í gær, en síðan var tekið til skrafs og ráðagerða inn­an flestra flokka, þar sem rædd var bæði sókn og vörn, að því er fram kem­ur í Morg­un­blaðinu í dag.

Gengið er út frá því sem vísu að fyrst verði látið reyna á að end­ur­nýja nú­ver­andi stjórn­ar­sam­starf, enda virðast flest­ir sam­mála um það – bæði í stjórn og stjórn­ar­and­stöðu – að kosn­inga­úr­slit­in feli fyrst og fremst í sér stuðnings­yf­ir­lýs­ingu meiri­hluta kjós­enda við rík­is­stjórn­ina.

For­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar töluðu enda mjög á þann veg á seinni hluta kosn­inga­bar­átt­un­ar, að rík­is­stjórn­ar­sam­starfið væri eitt kosn­inga­mál­anna og gengu raun­ar nokkuð langt í því sam­hengi, þótt þeir gleymdu sjaldn­ast hef­bundn­um yf­ir­lýs­ing­um um að vita­skuld gengju þeir óbundn­ir til kosn­inga. Stöku stjórn­arþing­menn, jafn­vel ráðherr­ar, gáfu þó eitt og annað til kynna um að ann­ars kon­ar sam­starf kæmi til greina eða væri jafn­vel æski­legt.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jak­obs­dótt­ir. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Þreif­ing­ar í dag

Það má telja næsta víst að eig­in­leg­ar þreif­ing­ar um áfram­hald­andi stjórn­ar­sam­starf Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri grænna hefj­ist í dag. Stjórn­arþingmaður, sem Morg­un­blaðið ræddi við, taldi að það ætti að geta gengið hratt fyr­ir sig, for­menn stjórn­ar­flokk­anna þekkt­ust orðið vel og milli þeirra ríkti gagn­kvæmt traust.

Hins veg­ar er ljóst að stjórn­ar­sam­starfið held­ur ekki bara áfram si­sona, all­ir hafa for­menn flokk­anna þriggja haft á orði að semja þurfi um nýj­an stjórn­arsátt­mála sem end­ur­spegli bæði það sem mætti af­gangi á liðnu kjör­tíma­bili og helstu kosn­inga­áhersl­ur flokk­anna á síðustu vik­um.

Við blas­ir að um það allt eru flokk­arn­ir ekki á eitt sátt­ir í öll­um mál­um, þó einnig sé bent á að í mörg­um mála­flokk­um ríki samstaða um það sem koma skal. Ef­laust verður þó eitt­hvað þráttað um for­gangs­röð og fjár­veit­ing­ar.

Metnaður Sig­urðar Inga

Hið vanda­sam­asta verður án nokk­urs vafa hvernig flokk­ar skipta með sér verk­um í rík­is­stjórn.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, get­ur með réttu vísað til stór­auk­ins þingstyrks flokks síns og að hið aukna umboð flokks­ins frá kjós­end­um þurfi að end­ur­spegl­ast við rík­is­stjórn­ar­borðið.

Þing­menn, sem blaðið ræddi við, telja að Sig­urður Ingi muni hreyfa þeirri hug­mynd að hann verði for­sæt­is­ráðherra. Hitt sé annað mál hversu mik­il al­vara sé þar að baki, slík krafa geti nýst hon­um í öðrum samn­ing­um um skipt­ingu ráðuneyta.

Fram­sókn hafi að mörgu leyti verið „þögli fé­lag­inn“ í rík­is­stjórn­ar­sam­starf­inu en geti nú gert aukn­ar kröf­ur af nýj­um metnaði, sem fylgi kosn­inga­sigr­in­um.

Talið er að Vinstri græn felli sig ekki við aðild að rík­is­stjórn nema Katrín Jak­obs­dótt­ir verði áfram for­sæt­is­ráðherra. Því til stuðnings er bent á mikl­ar per­sónu­vin­sæld­ir henn­ar, sem nái langt út fyr­ir raðir stuðnings­manna flokks henn­ar. Þar fyr­ir utan er rætt um að nú stytt­ist aft­ur í kjara­samnn­inga, sem viðbúið er að reyn­ist erfiðir. Þá kunni að skipta sköp­um að hafa vinstrimann í for­sæt­is­ráðuneyt­inu.

Ekki er úti­lokað að sam­starfs­flokk­arn­ir fall­ist þau rök, „en það mun kosta,“ eins og einn viðmæl­enda blaðsins orðaði það.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka