Kjörsókn í alþingiskosningum 2021 var aðeins lakari en í kosningunum fyrir fjórum árum. Alls greiddu 201.792 atkvæði í ár eða 80,1% kosningabærra manna en 81,2% greiddu atkvæði í alþingiskosningunum 2017. Kjörsókn var nokkuð jöfn á milli kjördæma. Í Norðvesturkjördæmi var hún mest, þar kusu 82%. Dræmust var hún í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðurkjördæmi þar sem 79% greiddu atkvæði. Kjörsóknin er örlítið betri en árið 2016 þegar 79,2% kosningabærra manna kusu.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Við höfum verið í kringum þessi 80% í nokkrar kosningar í röð en ef maður horfir yfir á lengri tíma þá hefur kosningaþátttakan smám saman verið að minnka. Hún var lengi í kringum 90%. Vonandi heldur hún ekki áfram að minnka, hún hefur ekki gert það tvennar kosningar í röð. Þannig maður vonar að hún standi í stað, eða aukist,“ segir Eva Heiða Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, og bætir við að það sé erfitt að spá fyrir um framtíðina. Síðast var kjörsókn 90,1% árið 1987.
„Í alþjóðlegum samanburði er kosningaþátttaka hér tiltölulega há en hún er líka tiltölulega há á flestum Norðurlöndunum. En á alþjóðavísu hefur kosningaþátttaka almennt farið lækkandi,“ segir Eva.
Ekki er auðvelt að skýra af hverju kosningaþátttaka fer minnkandi með árunum en Eva segir að rannsóknir sýni að það sé ekki vegna minnkandi áhuga á stjórnmálum. Yngri kynslóðirnar hafi breyst og taki ekki ákvarðanir á sama hátt og kynslóðirnar á undan.