Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman í Alþingishúsinu klukkan tíu í morgun og fór yfir stöðuna í kjölfar alþingiskosninga helgarinnar. Þingmannafjöldi flokksins stendur í stað á milli kosninga en nokkuð er um ný andlit og eru þau fjögur af þeim sextán sem náðu kjöri í kosningunum á laugardag.
Nokkuð létt var yfir nýbökuðum þingmönnum þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í gær og mun Framsóknarflokkurinn funda síðdegis.
Ríkisstjórnarflokkarnir juku þingmeirihluta sinn í alþingiskosningunum á laugardag og stjórnarandstöðuflokkarnir fengu engan veginn það fylgi, sem þeir höfðu talið innan seilingar. Framsóknarflokkur vann mikinn sigur og hefur nú 13 þingmenn, en Sjálfstæðisflokkurinn stóð nánast í stað á meðan VG missti þrjá þingmenn.
Forystumenn stjórnarflokkanna hafa sagst ætla að ræða saman, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir blasa við að stjórnarflokkarnir ræði saman um áframhaldandi samstarf. Nýjar kosningar marki þó alltaf nýtt upphaf og það þurfi allir flokkar að ræða sín á milli.