Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hittust á skrifstofu forsetans á Sóleyjargötu.
Rætt var um viðræður hennar, Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, undanfarna daga, og þau áform að þessir þrír flokkar haldi ríkisstjórnarsamstarfi áfram.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.
Þar segir einnig að forsetinn muni halda áfram að fylgjast með framvindu stjórnarmyndunarviðræðna.
Katrín, Bjarni og Sigurður sitja nú á fundi í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu og ræða sín á milli um mögulegt stjórnarsamstarf.
Upphaflega sagði í fréttinni að Katrín og Guðni hefðu fundað á Bessastöðum. Rétt er að þau funduðu á skrifstofu forsetans á Sóleyjargötu og er það hér með leiðrétt.