Íhugar kæru til kjörbréfanefndar

Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Alþingi í júní síðastliðnum.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Alþingi í júní síðastliðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem datt út af þingi fyrir Samfylkinguna eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, íhugar alvarlega kæru til kjörbréfanefndar sem hittist eftir helgi.

„Það er nefnilega ekki hægt að taka þetta klúður með léttvægum hætti,” segir hún á facebooksíðu sinni.

Rósa Björk var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður og fyrir endurtalninguna leit út fyrir að hún kæmist á þing í jöfnunarsæti.

Hún kveðst strax hafa tekið ákvörðun um að tala ekki við fjölmiðla vegna málsins. Hún er búin að óska eftir gögnum frá landskjörstjórn og hefur komið formlegum mótmælum til landskjörstjórnar.

„Ég vona að fólkið í kjörbréfanefnd taki rétta ákvörðun með hagsmuni lýðræðislegra þingkosninga að leiðarljósi,” skrifar hún og segir atburði og vafi um lögmæti Alþingis alltaf munu hanga yfir þinginu ákveði það að láta sem ekkert hafi í skorist.

„Við höfum ekki efni á öðru Landsréttar-hneyksli sem var alþjóðleg auðmýking og lamaði millidómstig okkar í næstum eitt og hálft ár. Við getum ekki látið spyrjast um okkur að geta ekki uppfyllt kröfur um réttlátar og löglegar þingkosningar að auki,” skrifar hún og bætir við að fjöldi fólks hafi sent henni hvatningu og uppörvun.

„Ég hef líka sjálf séð með eigin augum í kosningaeftirliti erlendis hvað kosningarétturinn og réttlátar kosningar skiptir fólk gríðarlega miklu máli þó að við höfum alltof oft tekið þeim rétti sem gefnum. Munum líka að kosningarétturinn kom ekki til okkar heldur börðust fyrri kynslóðir fyrir honum,” skrifar Rósa Björk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert