Andrés Magnússon
Gott hljóð er sagt vera í formönnum ríkisstjórnarflokkanna og að viðræður þeirra gangi vel. Þetta segja stjórnarþingmenn, sem Morgunblaðið ræddi við, en formennirnir verjast sem fyrr allra frétta og svara spurningum um viðræðurnar afar almennt.
Stjórnarþingmenn segja ekkert benda til þess að viðræðurnar sigli í strand þótt þær taki tíma. Einn þeirra minnti á að þessi kafli viðræðnanna hefði tekið um þrjár vikur síðast, en þá hafi verið mun meiri tímapressa. Formennirnir hafi sagst ætla að gefa sér góðan tíma að þessu sinni og því sé ekki óvarlegt að gera ráð fyrir því að menn ræði saman út mánuðinn.
Mikill tími hefur farið í að finna lausnir á óuppgerðum málum frá fyrra kjörtímabili, en þar mun hafa þokast nægilega mikið áfram til þess að farið er að ræða frekari stefnumótun fyrir nýhafið kjörtímabil. Þar eru efnahagsmálin efst á blaði, en þar blasa margar áskoranir við og áherslur flokkanna mismunandi.