Álitaefnin eru mörg í kjölfar kosninganna í Norðvesturkjördæmi en undirbúningsnefnd Alþingis fyrir rannsókn kjörbréfa hefur málið til meðferðar. Mál af þessu tagi hefur aldrei áður komið upp, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Að mati sérfræðinga sem blaðið leitaði til getur sú staða mögulega komið upp í kjölfar vinnu kjörbréfanefndar að Alþingi samþykki ekki kjörbréf kjördæmakjörinna þingmanna í NV-kjördæmi og enn fremur kjörbréf þeirra jöfnunarþingmanna sem hlutu kosningu samkvæmt síðustu tölum í NV-kjördæmi. Þetta myndi þýða að kjörbréf 47 þingmanna yrði samþykkt en ekki 16 þingmanna (jöfnunarþingmenn 9 + 7 kjördæmakjörnir í NV), þar sem Alþingi hefði úrskurðað kosningar í NV ógildar. Fer þá uppkosning (endurkosning) fram samkvæmt kosningalögum. Leiði niðurstaða slíkrar kosningar til annarrar niðurstöðu myndi landskjörstjórn gefa út ný kjörbréf fyrir hina nýkjörnu þingmenn sem kæmu svo til umfjöllunar í þinginu eins og eftir almennar kosningar. Alþingi væri engu að síður starfhæft þar til niðurstaða væri komin úr uppkosningu þar sem meirihluti þingmanna getur tekið þátt í samþykktum Alþingis á fundi.
Í fyrstu grein þingskapalaga segir að á fyrsta fundi þingsins eftir kosningar til Alþingis skuli kjósa níu þingmenn í nefnd eftir reglum til þess að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna. Nefndin kýs sér formann og framsögumann og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns skuli talin gild.
Í 5. grein þingskapalaganna segir að þingið geti við rannsókn þá, er ræðir um í 1. gr., úrskurðað kosningu ógilda þótt eigi hafi hún kærð verið og einnig frestað að taka kosningu gilda til þess að fá skýrslur. Svo er og um kosningu þingmanns er eigi er kominn, eða kjörbréf hans, þá er þing er sett. Sama er um kjörgengi.
Að öðru leyti tekur þingið eigi upp hjá sjálfu sér að rannsaka kosningar eða kjörgengi en gerir það því aðeins að kært sé yfir þeim.