„Íslensk óþolinmæði“ eftir stjórnarmyndun

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Þau eru …
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Þau eru formenn flokkanna þriggja sem nú ræða myndun ríkisstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þing verður ekki kallað saman eða stjórnarsáttmáli kynntur fyrr en kjörbréfanefnd hefur komist að einhvers konar niðurstöðu vegna meintra ágalla á endurtalningu atkvæða í norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum, að sögn Bjarkeyjar Olsen, þingkonu Vinstri grænna.

„Þangað til þetta liggur fyrir þá er auðvitað ekkert verið að kynna einhvern stjórnarsáttmála eða kalla saman þing eða eitthvað slíkt,“ sagði Bjarkey í viðtalsþættinum Sprengisandi í morgun.

Þar voru stjórnarmyndunarviðræður ræddar og komu Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, einnig að borðinu.

Bjarkey og Diljá, sem báðar sitja í flokkum sem eru nú í viðræðum um stjórnarsamstarf, sögðu að viðræðurnar gengju ekki óeðlilega hægt. Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ræða nú stjórnarmyndun sín á milli.

„Þetta er kannski hin íslenska óþolinmæði, það eru rétt um fjórar vikur liðnar og það er ekkert óeðlilegur tími í stjórnarmyndunarviðræðum,“ sagði Bjarkey. 

Diljá vill sjá heilbrigðisráðuneytið hjá Sjálfstæðisflokknum

„Það var svo sem viðbúið að þetta tæki einhvern tíma,“ sagði Diljá. Aðspurð sagðist hún vona að Sjálfstæðisflokkurinn fengi heilbrigðisráðuneytið í sínar hendur.

Bjarkey sagði að ráðuneyti hefðu ekki verið rædd sérstaklega heldur það hvernig Vinstri græn vilji ganga frá orðalagi og öðru slíku varðandi öll mál. Þar nefndi hún sérstaklega útlendingamálin og sagði að Vinstri græn hefðu ekki verið ánægð með það hvernig haldið var á spöðunum í þeim efnum á kjörtímabilinu.

„Orðin tóm“

Björn Leví sagði að fyrir kosningar hafi ríkisstjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um neitt. Í kosningabaráttunni hafi þeir svo sagt að málefnin ættu að ráða för.

„En þegar þau reyna ekki einu sinni að tala við aðra flokka um það hvaða málefni eigi að ráða eru það bara orðin tóm. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Björn sem hélt því fram að viðræðurnar snerust ekki um málefni heldur valdastóla.

Bjarkey sagðist ósammála því, verið væri að ræða málefni en vanda þyrfti til verka.

Rannsókn kjörbréfanefndar á endurtalningu í Norðvesturkjördæmi stendur enn yfir. Björn og Diljá sitja í nefndinni og sögðu þau að enn væri verið að safna gögnum til þess að mögulegt væri að skoða heildarmyndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert