Undirbúningskjörbréfanefnd fundaði í dag með talningarsérfræðingum úr Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Björn Leví Gunnarsson segist ekki vita hvenær vænta megi niðurstöðu frá nefndinni varðandi þau álitaefni sem komu upp í alþingiskosningum en hún fundar aftur á morgun.
Sérfræðingarnir úr Reykjavík fóru yfir skipulagið í kjördæmunum tveimur, sýndu nefndarmönnum myndir af því hvernig þeir hefðu raðað borðunum, útskýrðu hvað hafi verið gert á hverju borði og hvernig flutningi atkvæða á milli borða hafi verið háttað. Auk þess var farið yfir fyrirkomulag affermingar og verklag í tengslum við innsiglun kjörgagna.
Auk talningarsérfræðinga úr Reykjavík var óbreytt talningarfólk úr Norðvesturkjördæmi kallað til fundar. Þau fóru yfir verklag og framkvæmd talningarinnar í síðustu alþingiskosningum.
Björn Leví gat ekki sagt til um hvort mikill munur hafi verið á þeirri framkvæmd sem talningasérfræðingar Reykjavíkurkjördæmana lýstu og fyrirkomulagi kosninganna í Norðvesturkjördæmi eins og talningarfólkið lýsti því.
„Það er mismunandi mikið pláss sem fólk hefur, og mismunandi mikið af fólki og mismunandi pláss sem það hefur enda mismörg atkvæði. Það var ekkert nema eðlilegar skýringar á þeim mun þannig séð. En það nefna það allir, eins og er í nýju kosningalögunum, að samræmi milli kjördæma væri alltaf til bóta. Þetta er bara gömul saga og ný, ekkert sem við höfum ekki heyrt áður,“ segir Björn í samtali við mbl.is
Næsti fundur hjá undirbúningskjörbréfanefndinni verður á morgun. Björn segist ekki viss á því hvenær nefndin taki afstöðu til þeirra álitamála sem hafa komið upp: „Ekki hugmynd!“