Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill lítið tjá sig um kæruna sem undirbúningsnefnd kjörbréfa barst á dögunum vegna umdeildra vistaskipta Birgis úr Miðflokknum skömmu eftir alþingiskosningarnar.
Þar var skorað á Alþingi að ógilda kosningu Birgis og staðfesta ekki kjörbréf hans. Farið var fram á að Erna Bjarnadóttir úr Miðflokknum tæki sæti Birgis á þingi. Kærandinn hélt því fram að kjósendur Miðflokksins í Suðurkjördæmi hefðu keypt köttinn í sekknum því Birgir gat þess hvergi í aðdraganda kosninganna að unnið væri gegn honum innan flokksins eða að hann teldi sig ekki eiga samleið með öðrum oddvitum hans.
„Minni á 48. grein stjórnarskrárinnar um að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína,“ skrifar Birgir í svari til mbl.is. Þar segir orðrétt: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“
Birgir bætir við að fordæmi séu fyrir því að kæru sem þessari hafi verið vísað frá með rökstuðningi.
Í síðasta mánuði var settur af stað undirskriftalisti þar sem skorað var á Birgi að segja sig frá þingmennsku vegna vistaskiptanna yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem standa fyrir söfnuninni sögðu að hún hafi verið sett af stað „í þeim tilgangi að verja lýðræðið“ og að Birgir hefði boðið sig fram undir fölsku flaggi.
Tæplega 800 manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.