Píratar smeykir við uppkosningu

Guðrún Hafsteinsdóttir er líklegust til þess að vera nýtt ráðherraefni Sjálfstæðisflokksins þó fleiri komi til greina, en að líkindum sitja núverandi ráðherrar áfram. Af hálfu Framsóknarflokks, sem talið er að bæti við sig ráðherra, er Willum Þór Þórsson sagður efstur á blaði.

Þetta kemur fram í samtali þeirra Stefáns Pálssonar sagnfræðings og Gísla Freys Valdórssonar ritstjóra, en þeir eru gestir Dagmála Morgunblaðsins í dag, streymi sem opið er öllum áskrifendum.

Gísli Freyr minni þó á það að Bjarni Benediktsson hafi til þessa verið óhræddur við að fara óvæntar leiðir í vali á ráðherrum, það hafi gerst hvað eftir annað. Í þættinum eru langvinnar viðræður stjórnarflokkanna um endurnýjað stjórnarsamstarf einkum til umræðu, auk þess sem vandræði vegna framkvæmdar kosninga í Norðvesturkjördæmi taka talsvert rými.

Stefán Pálsson segir að umræða um talninguna norðvestra væri vafalaust erfiðari ef þar væru í húfi þingsæti, sem farið gætu frá einum flokki til annars. Hins vegar sé athyglisvert hvað Píratar séu orðnir miklu hóflegri í umræðu um talninguna en þeir voru í upphafi. Stefán telur að það megi rekja til þess að þeim reiknist svo til að við uppkosningu í Norðvesturkjördæmi væri veruleg hætta á að þeir misstu þingmann einhvers staðar á landinu, sem þá félli að líkindum Sjálfstæðisflokki í skaut. Þar skeikaði aðeins 120 atkvæðum.

Dagmálaþátt dagsins má nálgast með því að smella hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert