„Það verða breytingar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, spurð í Silfrinu hvort útlit væri fyrir talsverðar mannabreytingar innan ríkisstjórnarinnar.
Stjórnarflokkarnir þrír Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn ræða enn myndun ríkisstjórnar, átta vikum eftir kosningar.
Það þykir Sigmari Guðmundssyni, þingmanni Viðreisnar, vera „svakalegur tími“ í að „endurnýja heitin“.
„Við eigum ekkert mörg dæmi um það í lýðveldissögunni að þetta gangi svona brösulega.“
Guðrún Hafsteinsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, sagði það alveg gefið að ekki væri kynnt ný ríkisstjórn fyrr en endanleg kosningaúrslit yrðu staðfest. Það hefur dregist á langinn vegna vandræðagangs með endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi.
Egill Helgason, þáttastjórnandi Silfursins, spurði Lilju út í það hver myndi treysta sér til þess að taka stól heilbrigðisráðherra.
„Ég held að það séu öflug tækifæri. Það er þannig að við þurfum að hlusta vel á fólkið okkar, fólkið á Landspítalanum. Það er alveg gríðarlegur mannauður þar og við þurfum aukið samráð við þau,“ sagði Lilja sem hældi núverandi heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur.
„En það eru líka tækifæri í þessari stöðu eins og hún birtist okkur.“
Guðrún, sem er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, sagðist ekkert hafa farið í grafgötur með það að mikil krafa sé um það í kjördæminu að fyrsti þingmaður og oddviti Sjálfstæðismanna fái ráðherraembætti. Guðrún sagðist klár til allra verka.
„Það er auðvitað mjög rík krafa frá kjördæminu um að það verði ekki gengið fram hjá Suðurkjördæmi aftur við myndun þessarar ríkisstjórnar.“