Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, vísar gagnrýni Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, til föðurhúsanna en Eyþór sagði í gær að grunsemdir væru uppi um að þétting við Bústaðaveg væri enn á dagskrá og að meirihlutinn væri aðeins að standa af sér storminn fram yfir kosningar í vor.
„Því fer fjarri og ég vísa þessari gagnrýni algjörlega til föðurhúsanna. Umsagnarferlinu lauk 7. janúar, niðurstöður þess voru kynntar strax á fyrsta fundi skipulagsráðs eftir jól sem var 12. janúar. Strax þá bókaði meirihlutinn að tillögur um Bústaðaveg yrðu dregnar til baka og það yrði hætt við þau áform.“
Pawel segir að ekkert verði af áformum um þéttingu byggðar við Bústaðaveg og skilur ekki hvers vegna borgarfulltrúar minnihlutans eru að ýfa upp mál sem er afgreitt.
Meirihluti borgarstjórnar vísaði tillögu minnihlutans um að formlega yrði fallið frá þéttingaráformum við Bústaðaveg, Miklubraut og Háaleitisbraut frá á borgarstjórnarfundi á þriðjudag.
Áformum um þéttingu byggðar við Bústaðaveg var mætt með sérstaklega mikilli andstöðu og sögðust um tveir þriðju hlutar íbúa við götuna vera andsnúnir þéttingunni í Gallup-könnun sem borgin lét gera.
Pawel segir að vegna þess hafi verið dregið í land með áformin og að með því hafi verið fallið alveg frá þeim. Það hafi verið rækilega kynnt bæði íbúum hverfisins og í fjölmiðlum. Hann skilur því ekki hvers vegna borgarfulltrúar minnihlutans vilja ræða málið áfram.
„Niðurstaðan er sú að það verður fallið frá þessum áformum og það verður ekki ráðist í framkvæmd þeirra að kosningum liðnum. Við erum hins vegar að sjá að Sjálfstæðisflokkinn langar, einhverra hluta vegna, að halda málinu lifandi, væntanlega af pólitískum ástæðum. Það skapar óróa í hverfinu sem er að öllu leyti ástæðulaus, vegna þess að það er búið að hætta við tillögurnar um Bústaðaveg,“ segir Pawel.
Spurður hvort þær tillögur sem borgin hefur kynnt um þéttingu í grennd við Miklubraut og Háaleitisbraut standi ennþá óhaggaðar segir Pawel þær ennþá vera í vinnslu:
„Umsagnafresti er lokið, það er einfaldlega næsta verkefni að vinna úr þeim umsögnum sem hafa borist. Við höfum ekki gefið út yfirlýsingu sambærilega þeirri sem við gáfum út fyrir Bústaðaveginn.“
Pawel segir að samkvæmt áðurnefndri könnun sé meirihluti íbúa hlynntur því að þétta byggð við Miklubraut ef hún yrði sett í stokk.
„Mér finnst ekki ástæða til að slá hugmyndir um allar breytingar á Miklubraut út af borðinu. Við erum að vinna úr þessum umsögnum sem hafa borist í umsagnaferlinu og svo verða teknar ákvarðanir út frá því,“ segir Pawel.
Ekki náðist í oddvita Vinstri-grænna, Samfylkingarinnar né Pírata við vinnslu fréttarinnar.