Sér færi á stórsigri jafnaðarmanna

Guðmundur Árni Stefánsson.
Guðmundur Árni Stefánsson. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi þingmaður, bæjarstjóri og sendiherra til sextán ára vann góðan sigur í prófkjöri Samfylkingarinnar í gær.

Hann segist í samtali við mbl.is afar ánægður með niðurstöðuna og þátttökuna.

„Ég fann það í þessari prófkjörsbaráttu að það var hugur í fólki og er það ennþá. Það hefur ekki breyst neitt markmiðið. Ég sé öll færi á því að jafnaðarmenn sæki hér stórsigur í Hafnafirði í maí. Það er mitt markmið.“

Þörf fyrir sigurhefð

Aðspurður segist Guðmundur hafa óskað eftir heimflutningi frá Kanada, þar sem hann var sendiherra, vegna fjölskylduaðstæðna. Hann hafi stuttu síðar farið að líta í kringum sig og talið sig geta komið að gagni í baráttu flokksins í Hafnarfirði.

„Ég taldi vera þörf fyrir reynslu og þekkingu og kannski sigurhefð líka. Mér hefur gengið vel hérna og gekk vel í Hafnarfirði áður fyrr, og yfirleitt í pólítík,“ segir hann.

„Ég er aldeilis til í þennan slag. Það er bara tilhlökkun eftir þessari kosningabaráttu.“

Guðmundur segist skynja vilja í Hafnarfirði fyrir breytingu þar sem á síðastliðnum árum hafi hlutirnir gerst hægt. Einnig sé það algjörlega óviðunnandi að sjá fólksfækkun í bænum eins og árið 2020.

„Það eru dauðafæri þarna og við ætlum að sækja góðan sigur og verða ríkjandi afl í hafnfirsku pólitíkinni eins og vera ber,“ segir hann.

„Jafnaðarmenn eiga miklu meira fylgi í Hafnarfirði heldur en 20% frá síðustu kosningu. Ég ætla sækja það fylgi og bjóða fólk velkomið heim aftur og ná í nýtt fylgi auðvitað.“

Skipulagsmálin í brennidepli

Guðmundur telur að skipulagsmál muni vega þungt í komandi kosningum.

„Við munum leggja fram skýr plön í kosningabaráttunni, hvernig við ætlum að leysa þau mál og önnur mál. Við verðum ekki með kosningaloforð út um allar trissur en það sem við segjum munum við standa við.“

Að auki nefnir hann að vegamál og óánægja leikskólastarfsmanna séu vandamál sem þurfi að leysa.

Endurkoma í bæjarstjórastólinn ekki á dagskrá

„Jafnaðarmenn í Hafnarfirði hafa lagt áherslu á það að atvinnulífið sé öflugt, því án atvinnulífs verður engin velferð. Það sama gildir, ef það er engin velferð þá verður atvinnulífið ekki í góðum færum heldur, svo þetta spilast allt saman.“

Spurður um mögulega endurkomu í bæjarstjórastól Hafnarfjarðar segir Guðmundur að það sé langur vegur fram undan áður en það verði á dagskrá.

„Bæjarstjórastarf fyrir mig er ekki á dagskrá í augnablikinu og það er enginn draumur minn að eiga einhverja endurkomu í því, en ég vík mér aldrei undan verkum og hef aldrei gert ef mál þróast þannig, en það er langt fram undan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert