Framboðslistar taka á sig mynd

Þórdís Lóa (C), Líf (V), Almar (D) og Rósa (D) …
Þórdís Lóa (C), Líf (V), Almar (D) og Rósa (D) voru öll hlutskörpust í prófkjörum sinna flokka. Samsett mynd

Framboðslistar stjórnmálaflokkanna eru óðum að taka á sig mynd fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, sem fram fara hinn 14. maí. Um helgina fóru fram ýmis prófkjör og flokksvöl á höfuðborgarsvæðinu og dagana á undan höfðu línurnar einning skýrst víðar.

Almar sigraði í Garðabæ

Spennan var án vafa mest hjá sjálfstæðismönnum í Garðabæ, þar sem þrjú buðu sig fram í oddvitasætið, sem losnaði þegar Gunnar Einarsson bæjarstjóri leitaði ekki endurkjörs. Almar Guðmundsson bæjarfulltrúi hafði þar nauman sigur á stöllu sinni, Áslaugu Huldu Jónsdóttur, en aðeins skildi 41 atkvæði þau að.

Prófkjör sjálfstæðismanna var afar fjölmennt. 17 buðu sig fram, en í því tóku 2.448 manns þátt, sem er um helmingur skráðra flokksmanna í þessu einu helsta vígi Sjálfstæðisflokksins. Það eru um 18% fólks á kjörskrá í bænum í vor, svo ekki er unnt að kvarta undan áhugaleysi á bæjarmálum í Garðabæ.

Tryggur sigur hjá Rósu

Það var ekki alveg jafnmikil spenna með oddvitasætið hjá sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði, sem Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri sóttist ein eftir. Þar kusu 1.114 manns og hlaut Rósa 904 atkvæði alls eða 81%, en rúm 70% í 1. sæti.

Hins vegar var nokkur keppni um önnur sæti, en alls buðu 14 manns sig fram í prófkjörinu. Helstu tíðindin voru þau að Orri Björnsson hlaut þar 2. sætið en keppinautar hans, þau Kristinn Andersen og Kristín Thoroddsen, fengu sætin á eftir.

Óbreytt staða hjá Viðreisn

Viðreisn efndi til síns fyrsta prófkjörs í Reykjavík um helgina. Þar völdu flokksfélagar fjögur efstu sæti listans, en flokkurinn hefur nú tvo borgarfulltrúa. 1.182 greiddu atkvæði, sem var 61% kjörsókn, en flestir kusu með rafrænum hætti.

Þar hafði Þórdís Jóna Sigurðardóttir skorað nöfnu sína, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa, á hólm um efsta sætið og hlaut 474 (40%) atkvæði. Borgarfulltrúinn fékk hins vegar 575 (49%) og hélt því sæti sínu. Pawel Bartoszek fékk hins vegar afgerandi kosningu í 2. sæti með 799 (68%) atkvæði, svo Þórdís Jóna féll niður í 3. sæti. Staðan á toppnum hjá Viðreisn verður því óbreytt í vor.

Líf hélt velli hjá VG

Í forvali Vinstri-grænna var kosningaþátttakan öllu dræmari, en þar kusu 897 manns, sem er um 40% kjörsókn miðað við félagatalið. Þar var þó tekist á um efsta sætið, sem Líf Magneudóttir skipaði síðast, en kosningaúrslitin 2018 þóttu ganga nærri afhroði.

Líf hélt samt sem áður velli og fékk 441 atkvæði í 1. sæti eða 49%. Stefán Pálsson sagnfræðingur fékk 458 (51%) atkvæða í 2. sætið, svo helsti áskorandi Lífar, Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur, féll niður í 3. sæti með 447 (50%) atkvæði í efstu þrjú sætin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert