Borgarlína Dags ekki á dagskrá Sjálfstæðisflokks

Allir frambjóðendur í annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins hafna fyrirliggjandi hugmyndum um Borgarlínu. Útfærsla á almenningssamgöngum er og verður eitt stóru málanna í prófkjöri flokksins og í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Friðjón R. Friðjónsson, Þorkell Sigurlaugsson, Marta Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon bjóða sig öll fram í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer um helgina. Þau voru gestir Stefáns Einars Stefánssonar og Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum og voru spurð út í afstöðu sína til Borgarlínu.

Auk þeirra býður Birna Hafstein sig fram í annað til þriðja sæti og verður gestur í Dagmálum á morgun.

Friðjón segist taka skýra afstöðu gegn Borgarlínu í núverandi mynd. „Ég er ekki sannfærður um Borgarlínu „light“ en ég er heldur ekki sannfærður um Borgarlínuverkefnið eins og það er núna,“ segir Friðjón og segist hrifinn af hugmyndum Hildar Björnsdóttur um úttekt erlendra aðila. „Borgarlínuna, við verðum að snúa henni við og taka hana algjörlega til gagngerrar endurskoðunar,“ segir Friðjón. 

Marta Guðjónsdóttir segist vilja hætta við Borgarlínuna vegna þess að hún muni ekki leysa umferðarvandann í Reykjavík. Vísar hún til skýrslu danska greiningarfyrirtækisins COWI, þar sem fram kom að líklegt er að aðeins tólf prósent munu nýta sér Borgarlínu. Þá telur Marta Sundabrautin muni létta verulega á umferð í borginni. 

Þorkell Sigurlaugsson telur ekki vandamál að afturkalla höfuðborgarsáttmálann. „Þegar við komumst í meirihluta, þá gerum við það sem við viljum með þetta verkefni,“ segir hann og bætir við hann vilji semja upp á nýtt við ríki og önnur sveitarfélög. 

Kjartan Magnússon segir strætókerfið í grunninn ágætt en vannýtt. „Auðvitað er mikil skynsamlegra og við fengum ráðgjöf frá Þýskalandi á sínum tíma um það að bæta vannýtta kerfið,“ segir Kjartan. Hann bendir á að rekstur og fjármögnun reksturs sé óútfært og líklegt sé að fjármögnunin verði í formi skattheimtu. 

Þessi peningar detta ekki af himnum ofan. Við verðum bara skattlögð fyrir þessu öllu saman. Mín stefna í þessu öllu saman er að ég segi: Borgarlínuskatt – nei takk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert