Urður Egilsdóttir
„Tilfinningin er góð og það er gott að finna svona afgerandi stuðning,“ segir Hildur Björnsdóttir nýkjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í samtali við mbl.is og bætir við að stuðningurinn sé góðs viti fyrir kosningabaráttuna framundan.
Hún segir prófkjörið hafa verið skemmtilegt og kröftugt.
„Hérna kom saman risastór hópur af fjölbreyttum frambjóðendum sem að höfðu margt fram að færa. Sumir náðu árangri og aðrir ekki en vonandi verða allir reiðubúnir að taka saman þátt í kosningunum í vor til að fylgja þessu í höfn.“
Hildur segist vera ánægð með kjörsókn í prófkjörinu en 5.445 greiddu atkvæði en gild atkvæði voru 5.292. Í leiðtogaprófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2018 tóku 3.885 þátt í prófkjörinu.
„Kosningin fór hægt af stað en fólk skilaði sér að lokum og ég var ánægð með niðurstöðuna.“
Framundan er að boða saman nýja lista flokksins sem Sjálfstæðismenn völdu í prófkjörinu, að sögn Hildar.
„Þetta er mjög fjölbreyttur, breiður og öflugur hópur. Við þurfum að fara leggja drög að næstu vikum. Við ætlum okkur stóra hluti í vor.“