Hitafundur á Kjalarnesi: „Hvers konar bíó er þetta?“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur á fundinum í gærkvöldi.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur á fundinum í gærkvöldi. Mynd/Skjáskot

Íbúum á Kjalarnesi var heitt í hamsi þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sótti þá heim og hélt íbúafund þar í gærkvöldi. 

Meðal þeirra sem tóku til máls var Kristinn Gylfi Jónsson, íbúi á Kjalarnesi. Sagði hann borgarstjóra „tala eins og köttur í kringum heitan graut“ um skotsvæðið í Kollafirði eftir að hann hafði í tvígang verið spurður út í afstöðu sína til þess. Kallaði hann eftir pólitískri afstöðu Dags á málinu. Dagur hafði þá svarað því að mál skotsvæðisins væri í hnút.

Íbúar í Kollafirði hafa löngum kallað eftir að svæðið verði fært og bent á mengun sem stafað geti af starfseminni auk mikillar hávaðamengunar. Þá var borgarstjóri einnig inntur eftir svörum um hvernig hreinsun svæðisins yrði háttað, færi skotsvæðið. 

Sama ræðan og fyrir fimm og tíu árum

„Það eru fimm ár, á morgun, síðan þú komst hérna síðast og sagðir: „Í haust byrjum við á hverfaskipulaginu.“ Það eru fimm ár. Það sama og þú ert að segja núna. Þú ert líka að segja það sama og fyrir fimm árum og fyrir tíu árum um þessar tíu lóðir í útjaðri Esjugrundar sem er núna verið að fara forleifauppgröft í núna í vor. Hvers konar bíó er þetta? “ sagði Kristinn síðan.

Einróma ákall var á meðal íbúa um að uppbyggingu á svæðinu verði flýtt eða komið af stað og íbúðarhverfi skipulögð. 

„Hér er fólk að biðja um, á tiltölulega ódýru landi, hér í Reykjavík, að það sé aukið byggingasvæði þess að byggja hús fyrir venjulegt fólk. Ekki að taka hverfi í Reykjavík og endurskipuleggja það og leyfa bröskurum að braska með það og leggja ofan á það innviðagjald þar sem að fermetrinn í íbúð, eins og í Vogahverfi, kostar 150 þúsund krónur áður en byrjað er að byggja,“ hélt Kristinn áfram. 

Dagur B. hlustar á eldræðu Kristins Gylfa.
Dagur B. hlustar á eldræðu Kristins Gylfa. Ljósmynd/Skjáskot

Hann sagði nægt byggingarland vera á Kjalarnesi, bæði í opinberri og einkaeigu og borgina hafa vafist fyrir uppbyggingu. Rak Kristinn síðan í nokkuð löngu máli málaferli borgarinnar og Eggerts Ólafssonar á Jörfa, sem er eigandi lóða á svæðinu og hafði óskað eftir byggingaleyfi á þeim. 

Kristinn uppskar mikið lófatak eftir eldræðu sína og áfram var spurt út í skotsvæðið.

Eins og loftbor eða vélsög

Ania Karlsdóttir, íbúi í Kollafirði, tók þannig til máls og sagði íbúa á svæðinu hafa fengið óháða aðila til að mæla hávaðann nærri skotsvæðinu og hafi hann mælst um 100 desíbil, en ekki á milli 50 og 60 desíbil líkt og borgaryfirvöld hefðu haldið fram.

Þetta er eins og loftbor eða vélsög alla daga við húsið þitt,“ sagði Ania. Afhenti hún þá Degi undirskriftarsöfnun íbúa þar sem kallað er eftir að skotsvæðinu verði lokað. 

Gísli Tryggvason, lögmaður íbúasamtakanna á Kjalarnesi, sagði að íbúar þar teldu forsendur sameiningar Kjalarnes í Reykjavíkurborg algjörlega brostnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert