Nokkuð ljóst að kosningalögin verði skoðuð

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

„Þessar hæfisreglur eru ekki settar inn að ástæðulausu en það kann að vera að ekki hafi verið hugsað til enda hvers kyns vandræði þetta gæti skapað í okkar litla samfélagi,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í samtali við mbl.is um nýjar hæfisreglur kjörstjórnarmanna.

Ný kosningalög voru samþykkt á síðasta þingi og tóku gildi um áramótin. Reynir í fyrsta skipti á þau í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fulltrúi í kjörstjórn má ekki eiga maka, fyrrverandi maka, núverandi eða fyrrverandi sambýlismann eða -konu, foreldri, barn, systkin, mág eða mágkonu sem eru í framboði. Þá ná nýju reglurnar líka yfir systkinabörn, barnabörn, afa, ömmu og systkini foreldra.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, gagnrýndi lögin í viðtali við Rúv og sagði að þau hafi sett kosningaundirbúning í mörgum sveitarfélögum í algjört uppnám. 

Gátu ekki gripið inn í fyrir kosningar

Þórunn tók við formennsku í nefndinni í desember og segist því ekki hafa forsendur til að dæma um afgreiðslu laganna. 

Hún segir þó að nefndin hafi tekið upp málið að beiðni Höllu Signý Kristjánsdóttur, fulltrúa í nefndinni, á miðvikudag.

„Við fengum gesti og spurðum dómsmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdastjóra landskjörstjórn út í málið til að gera okkur grein fyrir hvernig þetta væri og hvort þetta væri rétt. Málið var rætt en niðurstaða nefndarinnar var að við gætum ekki gripið inn í þetta núna af því að kjörstjórnir hefðu tekið til starfa og fresturinn var að renna út,“ segir Þórunn. 

„Það útilokar hins vegar ekki að loknum sveitarstjórnarkosningunum að það verði skoðað. Mér finnst það nokkuð ljóst að það verði vilji til þess að skoða það. Ég ætla þó ekki að fullyrða það en þá þarf að fara ofan í saumana á þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert