Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum, segir í viðtali við Morgunblaðið að hátt húsnæðisverð í Reykjavík sé að mestu tilkomið vegna stefnu borgarstjórnarmeirihlutans í húsnæðismálum. Alltof kostnaðarsamt sé fyrir fólk að eignast sína fyrstu fasteign.
Einar segir að borgin hafi ekki komið til móts við mikla eftirspurn á húsnæðismarkaði og einblínt um of á þéttingu byggðar, með slæmum afleiðingum.
„Ef sami meirihluti verður áfram á næsta kjörtímabili mun þessi sama stefna því verða ofan á. Þar með verður áframhaldandi neyðarástand á húsnæðismarkaði. Það er ekki eðlilegt að fyrstu íbúðarkaup séu hálfgerð áhættufjárfesting vegna þess að húsnæðisverð er svo óeðlilega hátt,“ segir Einar meðal annars og vísar til þess sem fram kom hjá Seðlabankanum á dögunum að íbúðum sem auglýstar voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefði fækkað um nærri 70% frá því í árslok 2019. Hafa þær ekki verið jafn fáar frá því að byrjað var að safna gögnum árið 2006.
Einar veltir því jafnframt fyrir sér hvort búið sé að aftengja jafnaðarhugsjónina. „Það er eiginlega búið að aftengja jafnaðarhugsjónina hvað varðar húsnæðismálin með því að úthluta ekki fleiri lóðum til að mæta eftirspurninni. Að þessir flokkar [sem mynda meirihluta í borgarstjórn] skuli gera það er mjög áhugavert,“ segir Einar og hann vill sjá stórsókn í húsnæðismálum í höfuðborginni.
Tryggja þurfi að Reykvíkingar verði í forystu í húsnæðismálum en láti ekki öðrum sveitarfélögum það eftir.
„Ég er ekki á móti borgarlínu, og ekki á móti því að þétta byggð, en við þurfum að fara í miklu kraftmeiri sókn í húsnæðismálunum. Það er alltaf verið að tala um framtíðina en framtíðin er líka á morgun og það þarf að drífa í þessu,“ segir Einar Þorsteinsson einnig.