Borgarlína og þétting byggðar skipti höfuðmáli

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata. mbl.is/Óttar

Píratar hófu formlega kosningabaráttu sína í dag á Kjarvalsstöðum þar sem stefnumálin voru kynnt fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

mbl.is ræddi við Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, um komandi kosningar og helstu stefnumál flokksins.

Borgarlína og Þétting byggðar 

Dóra kynnti helstu stefnumál flokksins sem þrjár víddir Reykjavíkur undir stjórn Pírata sem byggja á fimm stefnum Pírata fyrir kosningarnar. Stefnumál Pírata eru að mati Dóru mjög metnaðarfull. 

„Fagleg og nútímaleg lýðræðisborg, græn og barnvæn þekkingarborg og aðgengileg og fjölbreytt mannréttindaborg.“ 

Spurð hvað henni finnist mikilvægast fyrir næsta kjörtímabil segir Dóra það vera að loftlagsmál móti alla ákvörðunartöku hjá borgarstjórn, uppbyggingu Borgarlínu verði hraðað og að haldið sé áfram með þéttingu byggðar. 

Segir Dóra það skipta miklu máli fyrir loftlagsmál að efla samgöngur í borginni.

„Sem dæmi viljum við fá aftur næturstrætó og að veita börnum undir 18 ára ókeypis aðgang í strætó.“

Standa fyrir heiðarlegum stjórnmálum 

Að sögn Dóru standa Píratar fyrst og fremst fyrir gagnsæi, lýðræði og heiðarlegum stjórnmál.

„Það þýðir að við gefum engan afslátt, við erum ekki tilbúin í málamiðlanir eða að svíkja okkar kjarna prinsipp, hvort sem það varðar loftlagsmál, mannréttindamál eða baráttuna gegn spillingu.“

Stefnur flokksins séu ekki bara orð á blaði. 

„Við höfum sýnt það á kjörtímabilinu að við erum traustsins verðug og höfum náð miklum árangri í þágu almennings á síðustu tveimur kjörtímabilum.“

Að mati Dóru hefur gengið vel hjá flokknum að taka á erfiðu málunum á þessu kjörtímabili. „Við bregðumst við þegar erfið mál koma upp í staðinn fyrir að sópa þeim undir teppið.“ 

Kveðst Dóra vera að vísa til braggamálsins, umdeilda ráðningu æðsta embættismanns innan Reykjavíkurborgar í byrjun kjörtímabilsins og myglumálin í skólum borgarinnar.

Píratar komu saman á Kjarvalsstöðum í dag.
Píratar komu saman á Kjarvalsstöðum í dag. mbl.is/Óttar

Spenna fyrir komandi kosningum 

Dóra segir gífurlega spennu vera til staðar hjá Pírötum fyrir komandi kosningar og að flokkurinn ætli sér stóra hluti á næsta kjörtímabili. 

„Með meiri styrk getum við gert gott enn betra.“ 

Bendir Dóra á að flokkurinn sé að mælast sem þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn og býst því við góðri útkomu fyrir flokkinn á kjördag. 

Bjartsýn fyrir áframhaldandi samstarfi 

Spurð hvort hún sjái fyrir sér að halda áfram samstarfi núverandi meirihluta borgarstjórnar á næsta kjörtímabili segist Dóra vera jákvæð fyrir því. 

„Við erum opin fyrir áframhaldandi samstarfi og það hefur gengið vel. Við höfum í sameiningu náð fram miklum krafti í þeim málaflokkum sem sameina þessa flokka.“ 

Núverandi meirihluti borgarstjórnar samanstendur af Samfylkingunni, Viðreisn, Pírötum og Vinstrihreyfingu – grænu framboði.

Segir Dóra það sem ólíkt er á milli flokkana ekki trufla samstarfið. Tekur hún þá fram að það efli margbreytileika og stuðli að upplýstri og lýðræðislegri ákvarðanatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert