Hjólar í staur og segir Hafnartorg klúður

Dóra Björt, oddviti Pírata, segir að uppsöfnuð mistök í framkvæmd …
Dóra Björt, oddviti Pírata, segir að uppsöfnuð mistök í framkvæmd ógni öryggi hjólandi vegfarenda. Ljósmynd/Aðsend

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og varaformaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, tjáði sig í dag um það sem hún lítur á sem vanhugsaðar framkvæmdir með tilliti til grænnar stefnu borgarinnar í skipulagsmálum.

Tilefnið var umferðarskilti sem stendur upp úr hjólastíg í Borgartúninu en mynd af staurnum fór í dreifingu á netinu um helgina. Að mati Dóru eru klúður sem þessi óásættanleg. 

Ekki eina klúðrið

Segir Dóra, í samtali við mbl.is, að þó að staðsetning skiltisins líti ekki út fyrir að vera stórmál þá ógni skiltið samt öryggi hjólandi vegfarenda. Segir hún að þegar svona dæmi safnist saman teiknist upp sú mynd að hagsmunir gangandi og hjólandi vegfarenda víki fyrir hagsmunum þeirra sem fara keyrandi.  

„Auðvitað er þetta merki um ákveðinn vaxtarverk þar sem við höfum áratugareynslu af lagningu gatna en erum bara nýlega farin að leggja hjólastíga.“

Að sögn Dóru er við Hafnartorg að finna álíka mikið klúður, sem gengur gegn stefnu um grænt umhverfi. Bendir hún á að á Hafnartorgi sé ekki möguleiki að rækta gróður nema í kerjum, enda sé jarðvegsþykkt ekki nægilega mikil ofan á bílakjallaranum undir Hafnartorgi.  

„Það hafa reglulega komið upp tilvik sem sýna að það vanti ýmislegt upp á til að það sé verið að fylgja grænni stefnu borgarinnar, þótt að á heildina litið séum við að stefna í rétta átt,“ segir Dóra.

Mikilvægt að þróa verklag 

Dóra tekur fram að borgarstjórn sé með græna stefnu í aðalskipulagi en að framkvæmdin og innleiðing stefnu borgarstjórnar í deiliskipulag sé að hennar mati oft háð tilviljunum og einstaka verkefnastjórum.  

Lítur Dóra svo á að lausnin við þessu vandamáli sé að búa til einhvers konar hnitmiðað verklag sem þurfi að fara eftir til að tryggja innleiðingu grænnar stefnu í deiliskipulag og við framkvæmdir.

Segir Dóra það ekki ganga að þurfa að treysta á það að kjörnir fulltrúar grípi svona yfirsjónir á fundum skipulags- og samgönguráðs eða að það fari eftir metnaði einstakra verkefnastjóra hvernig framkvæmdin verður útfærð með tilliti til umhverfissjónarmiða og markmiða um græna borgarþróun. Þess vegna sé mikilvægt að setja einhvern ramma í kringum hvernig framkvæmdir eru skipulagðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka