Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, gagnrýndi Dag B. Eggertsson og meirihluta hans í borgarstjórn harðlega vegna ársreiknings Reykjavíkurborgar í dag á borgarstjórnafundi.
Hún sagði að rekstur borgarinnar væri farinn úr böndunum og að bókahaldsbrellum hafi verið beitt við ársreikningsgerð borgarinnar.
Vigdís spurði Dag á fundinum hvort hann væri sáttur með það að veltufé frá rekstri borgarinnar standi í 0,3% og skuldahlutfall borgarinnar væri komið yfir 201% ef skuldir OR séu teknar inn í reikninginn.
Vigdís var ekki par sátt við svar Dags, en hann talaði um að veltufé væri lágt vegna faraldursins og að borgin hafði svigrúm til þess að ráðast í fjárfestingar þrátt fyrir hátt skuldahlutfall.
Vigdís sagði þetta svar vera undarlegt og að meirihlutinn fyndi alltaf einhvern sökudólg fyrir slæmum rekstri borgarinnar, og nefndi það þegar borgin sagði fall Wow Air hafa haft neikvæð áhrif á rekstur hennar.
„Það er ekki hægt að segja að það séu bjartir tímar framundan vegna þess að hér er verið að boða mikið fjárfestinga átak og það er eins og allir vita, lánadrifið. Það stendur til að taka 92 milljarða að þessu ári meðtöldu til ársins 2026.“