Segir rauðu ljósin loga hjá borginni

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði í dag á borgarstjórnarfundi að rauðu ljósin loguðu bæði skulda- og rekstrarmegin hjá Reykjavíkurborg.

Hann sagði það ljóst að þrátt fyrir að tekjur borgarinnar hafi hækkað, dugi það einfaldlega ekki fyrir eðlilegum fjárfestingum vegna skuldaaukningar.

„Skuldirnar eru nú komnar yfir 407 milljarða og jukust á síðasta ári um 24 milljarða. Það er meira en Harpan kostaði þegar hún var byggð. Þetta eru tveir milljarðar á mánuði.“

„Þetta gerist þrátt fyrir að tekjurnar séu að hækka svona gríðarlega, um 44 milljarða á síðasta ári.“

Froðuhagnaður upp á 20 milljarða

Hann telur bókfærðan hagnað upp á 20 milljarða vegna endurmats á félagshúsnæði borgarinnar vera dæmi um froðuhagnað.

„Þessi hagnaður er reiknaður en hann er ekki í hendi og um hann hefur verið deilt. Ef hann væri ekki bókfærður væri tap á samstæðunni.“

„Þetta er alls ekki sjálfbær rekstur og froðuhagnaður upp á 20 milljarða getur ekki staðið undir þessum fjárfestingum.“

Eyþór sagði einnig að meirihlutinn í borgarstjórn hafi gleymt því í góðærinu að greiða upp skuldir og því að hann ætlaði að gæta aðhalds í rekstri borgarinnar.

„Á þessu nýja kjörtímabili sem hefst í sumar þá munum við sjá að skattar verða áfram gríðarlega háir og verðskrár verði hækkaðar meira en við höfum séð, ég spái því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert