Líf skilur ekki hugmyndafræði Viðreisnar

Líf Magneudóttir, Alexandra Briem og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Líf Magneudóttir, Alexandra Briem og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Samsett mynd

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borginni, segist ekki skilja hvaða hugmyndfræði liggi á bak við kosningaloforð Viðreisnar um að fella niður skólagjöld fyrir fimm ára leikskólabörn. 

„Ég hef ekki fengið útskýringar á því af hverju þetta er ótrúlega gott og jafni aðstöðumun barna í skólakerfinu,“ segir Líf en henni finnst að ekki eigi að mismuna börnum eftir aldri. 

Sjálf lagði Líf fram tillögu í borgarráði í fyrradag um að borgarstjóra yrði falið að hefja undirbúning þess að innheimtu leikskólagjalda yrði hætt í Reykjavík. Tillögunni var frestað en Líf vonar að hún fái farveg á næsta borgarráðsfundi sem verður þó ekki fyrr en eftir kosningar. 

Fyrsta menntastigið

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni, telur tillögu Lífar hápólitíska og því hafi þurft að fresta henni til þess að hún yrði rædd. Þá segir hún sömuleiðis mjög skýra hugmyndafræði á bak við hugmynd flokks hennar um að fella niður skólagjöld fyrir fimm ára leikskólabörn.

„Við lítum svo á að hér sé um að ræða fyrsta menntastigið. Staðreyndin er sú að 5% fimm ára barna eru ekki í leikskóla. Það eru sérstaklega börn foreldra sem eru af erlendu bergi brotin. Við höfum áhyggjur af því, bæði út frá félagstengslum og málþroska. Okkur finnst mjög mikilvægt að börn missi ekki af fimmta árinu í leikskólanum sem er þetta undirbúnings ár fyrir skóla. Þannig að það er mjög skýr hugmyndafræði á bak við þetta,“ segir Þórdís Lóa.

Annað mál ef leikskólinn væri grunnþjónusta

Píratar tala fyrir sex tíma gjaldfrjálsum leikskóla. Alexandra Briem, sem skipar annað sæti á lista flokksins í borginni, telur að það yrði of dýrt fyrir borgina að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla eins og staðan er núna. Annað mál væri ef leikskólinn væri skilgreindur sem grunnþjónusta sveitarfélaga. 

„Nú eru leikskólar skilgreindir sem fyrsta skólastigið af menntamálayfirvöldum en þeir eru ekki skráðir sem grunnþjónusta sveitarfélaga. Ef að leikskólar væru skilgreindir sem grunnþjónusta og sveitarfélög fengju greitt með þeim frá ríkinu, eins og er gert með grunnskóla, þá væri mjög hæfur leikur að fella niður gjaldtöku fyrir leikskóla,“ segir Alexandra.

VG og Viðreisn ekki sammála

Líf segir að hún hafi reynt að koma gjaldfrjálsum leikskóla inn í meirihlutasáttmálann eftir síðustu kosningar árið 2018. Það hafi ekki tekist en hún hafi þó fengið í gegn lækkun leikskólagjalda

„Þetta var bitbeinið um lækkun skólagjalda. Ég sagði að ég gæti ekki farið í þennan meirihluta nema við værum að taka einhver skref í áttina að lækkun leikskólagjalda.“

Nái Líf endurkjöri þann 14. maí segir hún að hennar fyrsta verk verði að setja málið á dagskrá.

Svo virðist sem að flokkarnir sem mynda meirihluta séu ekki á einu máli um þetta mál. Spurð hvort mikil óeining sé með þetta innan borgarstjórnar segir Alexandra:

„Ég get alveg staðfest það að Viðreisn og VG eru ekki sammála um hvernig á að hátta rekstri leikskóla eða gjaldtöku fyrir þá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert