Kannanir vísbending um vilja fyrir breytingum

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík. Ljósmynd/Ágúst Óliver Erlingsson

Ein­ar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Reykja­vík, segist ánægður með frammistöðu Framsóknar í skoðanakönnunum sem birtar voru í dag í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem fram fara á morgun. 

Í Þjóðarpúlsi Gallup mælist Framsókn í dag með 17,5% atkvæða og 14,6% atkvæða í skoðanakönnun Maskínu. Í kosningunum árið 2018 hlaut Framsókn 3,2% atkvæða og náði engum manni inn í borgarstjórn. 

„Ég er ánægður með þessar tölur. Þetta er vísbending um að Reykvíkingar vilji breytingar. Við höfum spurt þeirrar spurninga hvort það sé ekki kominn tími á breytingar í Reykjavík og við erum tilbúin að leiða þær breytingar,“ sagði Einar þegar mbl.is náði af honum tali í dag. 

„Þótt að skoðanakannanir séu bara ákveðin vísbending sýnir þetta skýrt ákall um breytingar í borginni. Ég ætla samt sem áður ekki að hrósa neinum sigri fyrr en atkvæðin koma upp og kjörkassanum og ég hvet alla Framsóknarmenn til þess að mæta á kjörstað og skila sínu atkvæði í kassann. Svo vonandi fáum við góð úrslit annað kvöld,“ segir Einar. 

Segir Framsókn vilja leiða breytingar í borginni 

Aðspurður hverjum Framsókn myndi helst vilja vinna með við myndun meirihluta í borginni segir Einar:

„Við göngum alveg óbundin til kosninga. Við erum tilbúin að vinna með hverjum þeim sem vilja bæta borgina og gera nauðsynlegar breytingar á stefnu núverandi meirihluta. Það þarf að bregðast við neyðarástandi á húsnæðismarkaði og það þarf að stýra borginni út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna.

„Lykilatriðið er það að ef að þessi meirihluti heldur velli vita kjósendur hvað þeir fá næstu fjögur árin: þeir fá ekki breytingar – kjósendur þekkja stefnu þessara flokka og vita að ef hún heldur velli fáum við fjögur ár í viðbót af þessari stefnu. En ef kjósendur vilja breytingar er Framsókn flokkurinn sem getur unnið með öðrum og leitt slíkar breytingar,“ segir Einar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert