Geti komist í meirihluta þó sá gamli haldi

Hildur greiddi sitt atkvæði í Frostaskjóli í morgun.
Hildur greiddi sitt atkvæði í Frostaskjóli í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að „ákveðnir flokkar“ í meirihlutanum í borginni hafi upplifað að vera faldir í skjóli borgarstjóra í kosningabaráttunni og ekki náð að njóta sinnar eigin sérstöðu. Hún telur því ekki útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn komist í meirihluta jafnvel þó að niðurstöður kosninganna verði á þá leið að núverandi meirihluti haldi sínu fylgi.

„Það gæti orðið mjög mjótt á munum í kvöld og það skiptir máli að hvert einasta atkvæði skili sér í hús og fólk átti sig á því að ef það vill breytingar í borginni þá verður það að veita Sjálfstæðisflokknum myndarlegan stuðning í þessum kosningum. Öðruvísi verður ekki hægt að mynda meirihluta um breytingar,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is rétt eftir að hún hafði greitt sitt atkvæði. 

Samfylkingin aldrei fyrsti kostur

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is í dag að Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn væru hans sístu kostir fyrir samstarf í borginni. Spurð hvort Sjálfstæðisflokknum gæti hugnast að vinna með Samfylkingunni ef hún mýkist í sinni afstöðu sagði Hildur:

„Við göngum óbundin til kosninga en okkar markmið er fyrst og fremst að hafa nægan styrk eftir kosningar til þess að geta myndað sterkan meirihluta um ákveðnar grundvallarbreytingar. Það er auðvitað erfitt með Samfylkingunni en við útilokum auðvitað aldrei neitt. Það yrði aldrei fyrsti kostur.“

Hver væri fyrsti kostur?

„Meirihluti um breytingar. Það er þó erfitt að segja því að við vitum ekki hvað kemur upp úr kössunum í kvöld. Við munum bara þurfa að teikna það svolítið upp þegar við sjáum niðurstöðurnar.“

Borgarstjóraembættið ekki það mikilvægasta

Borgarstjóraembættið – er það þér mikilvægt í meirihlutaviðræðum?

„Það sem er mikilvægast er að við náum fram okkar málefnum og við náum fram þeim lykilbreytingum sem við viljum sjá hér í borginni; að við förum í kröftuga húsnæðisuppbyggingu, leysum samgönguvandann og leikskólavandann sömuleiðis, treystum fjárhag borgarinnar og förum í að lækka skatta,“ sagði Hildur.

Eigið þið ekki einungis möguleika á að komast í meirihluta ef núverandi meirihluti fellur?

„Það myndi ég ekki segja. Ég myndi segja að ákveðnir flokkar í meirihlutanum hafa kannski upplifað það mjög sterkt í þessari baráttu að hafa svolítið verið falin í skjóli borgarstjóra og hafi ekki náð að njóta sinnar eigin sérstöðu svo ég held að það sé alveg hægt að brjóta upp það mynstur,“ segir Hildur og bætir við:

„Við getum gengið í það verk eftir kosningar að taka utan um fjölbreyttan hóp flokka og mynda sameiginlega sýn.“

Hildur á kjörstað ásamt fjölskyldu sinni í morgun.
Hildur á kjörstað ásamt fjölskyldu sinni í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Væri sögulegt að ná að stökkva úr 16%

Ef þið fáið töluvert minna fylgi í þessum kosningum en síðast [árið 2018] eins og skoðanakannanir benda til, er það ekki viss ósigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

„Við erum auðvitað búin að horfa á nokkrar mjög slæmar kannanir en við skynjum allt annað í samtölum við fólk þannig að við vonum auðvitað að við náum ákveðnu flugi upp úr þessum könnunum. Það yrði þá sögulegt í ákveðnu samhengi ef við næðum að stökkva upp úr 16% upp í eitthvað aðeins meira á örfáum dögum. Við erum auðvitað að horfa á annað landslag en í kosningunum 2018 svo það er ekki allt að fullu samanburðarhæft.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert