Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík telur niðurstöður borgarstjórnarkosninganna vera til marks um skýrt ákall borgarbúa eftir breytingum.
Flokkurinn vann kosningasigur víða um land í gær og þá ekki síst í Reykjavík þar sem hann fór úr núll borgarstjórnarfulltrúum í fjóra. Meirihlutinn féll og telja margir Framsóknarmenn vera í lykilstöðu fyrir viðræður.
Að sögn Einars er flokkurinn reiðubúinn að taka að sér borgarstjóraembættið, „ef málin æxlast svo“.
„Við spurðum kjósendur hvort það væri kominn tími fyrir breytingar í Reykjavík og sú spurning var bæði um málefnin og stefnu borgarinnar, og líka um hina pólitísku forystu, og ég held að kjósendur hafi svarað með mjög afdráttarlausum hætti, að það sé kominn tími á breytingar.
Við í Framsókn erum tilbúin til að axla þá ábyrgð að leiða þessar breytingar sem eru framundan í borginni.“
Samtöl við aðra oddvita eru enn ekki hafin og segir Einar ekki liggja fyrir hvort flokkurinn kjósi frekar að leita eftir samstarfi til hægri eða vinstri. Hann hefur hingað til ekki útilokað samstarf við neinn flokk.
„Við erum bara núna aðeins að melta þessa niðurstöðu og finnst eðlilegt að ræða við oddvita flokkanna og heyra hvernig landið liggur. Gera þetta með opnum huga,“ segir Einar.
„Þessi samtöl snúast um málefnin og þannig mun ég nálgast þetta.“
Af þeim málefnum vega húsnæðismálin hvað þyngst, að sögn oddvitans, sem telur flesta flokka sjá þörf fyrir að byggja meira, hraðar og fjölbreyttara húsnæði.
„Reykjavík er höfuðborg Íslands og ber ábyrgð á því að tryggja lóðaframboð í Reykjavík og hér er mesta byggingarlandið og við eigum bara að hugsa stórt.“