Framsókn geti kallað fram breytingar í bandalaginu

Oddvitar flokka sem skipuðu meirihluta á síðasta kjörtímabili, að vinstri …
Oddvitar flokka sem skipuðu meirihluta á síðasta kjörtímabili, að vinstri grænum undanskildum, ætla að fylgjast að í viðræðum um nýjan meirihluta. Vilja þau fá Framsókn með sér í lið. mbl.is/Eggert

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir alveg mögulegt fyrir Framsókn að kalla fram breytingar í borginni þó að flokkurinn gangi til liðs við fallinn meirihluta.

„Hvað sem verður, verður nýr meirihluti og nýtt kjörtímabil. Þannig ég held að það sé alveg augljóst að það verða bætingar,“ segir Þórdís Lóa í samtali við mbl.is.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, hefur ekki sett sig í samband eftir að hún „hnippti í“ flokkinn í gær og hvatti hann til að taka næsta skref. Það gæti þó mögulega eitthvað gerst eftir fund Framsóknar í kvöld.

Í bandalaginu af heilum hug

Viðreisn, Samfylking, Píratar og Vinstri grænir mynduðu meirihluta á liðnu kjörtímabili sem féll í síðustu borgarstjórnarkosningum. Á mánudaginn í síðustu viku sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að oddvitar flokkanna, að Vinstri grænum undanskildum, ætluðu að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta.

Í samtali við mbl.is síðar þann dag sagði Þórdís Lóa að hún útilokaði ekki samstarf við aðra flokka en staðfesti þó að Viðreisn ætlaði að vera í samfloti með meirihlutaflokkunum. 

Í færslu sem birtist í gær á Facebook-síðu hennar segir hún þó flokkinn vera í bandalaginu af heilum hug. „Það er alveg skýrt og við leitum ekki annað.“ Vildi hún láta reyna á þetta bandalag með því að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta með Framsókn. 

„Skulum ekki fara fram úr okkur“

Spurð hversu örugg hún er um að flokkurinn fái pláss í meirihlutanum, í ljósi þess að Píratar, Framsókn og Samfylking gætu myndað hann án Viðreisnar segir Þórdís Lóa: „Við erum í þessu bandalagi af heilum hug og höfum átt samleið þegar að kemur að málefnum og þetta snýst um málefni.“

Hún segir of snemmt að fara að huga að því hvort minnihlutastjórn komi til greina, fari það svo að Framsókn hafi ekki áhuga á samstarfi, en segir þó að ýmislegt hafi verið reynt í gegnum tíðina í nágrannaþjóðum okkar í Skandinavíu.

„En við skulum ekki fara fram úr okkur. Ég held við ættum að vera í núinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka