Um skiptingu jöfnunarsæta

Með úthlutun jöfnunarsæta er leitast við að þingmannafjöldi flokkanna sé í sem bestu samræmi við prósentutölu þeirra á landsvísu í kosningunum. Hverjir fá jöfnunarsætin og í hvaða röð þeim er útdeilt (og þar með í hvaða kjördæmum hver flokkur fær jöfnunarsæti) fer eftir atkvæðatölu á landsvísu og fjölda kjördæmakjörinna þingmanna hvers flokks. Hér munu reglurnar varðandi þetta skýrðar og sýnt hvernig þeim er beitt miðað við fyrirliggjandi tölur um úrslit kosninganna 2021.

Fjöldi sæta í hverju kjördæmi

Í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi er eitt jöfnunarsæti á hvert kjördæmi, en í Suðvesturkjördæmi, Reykjavík norður og Reykjavík suður eru tvö jöfnunarsæti í hverju kjördæmi.

Landstölulisti

Ef flokkur hefur hlotið minna en 5% atkvæða kemur hann ekki til greina við úthlutun jöfnunarsæta. Fyrir aðra flokka er tekinn saman listi yfir svokallaðar landstölur flokksins. Fyrsta talan á þeim lista er heildaratkvæðafjöldi flokksins á landsvísu deilt með fjölda kjördæmissæta hans að viðbættum einum; önnur talan er atkvæðafjöldinn deilt með kjördæmissætum að viðbættum tveimur, o.s.frv.

Þá eru landstölur flokkanna bornar saman. Sá flokkur sem er með hæsta landstölu fær fyrsta jöfnunarsætið, sá sem er með næsthæstu töluna annað jöfnunarsætið og svo koll af kolli. Í þessum þingkosningum lítur heildarlistinn yfir níu hæstu landstölurnar svona út:

  1. Píratar (P): 4.308,2
  2. Viðreisn (C): 4.157,0
  3. Miðflokkurinn (M): 3.626,3
  4. Vinstri græn (V): 3.587,7
  5. Píratar (P): 3.446,6
  6. Viðreisn (C): 3.325,6
  7. Samfylkingin (S): 3.304,2
  8. Vinstri græn (V): 3.139,2
  9. Píratar (P): 2.872,2

Hæstu menn flokkanna: úthlutunarskrá

Landstölulistinn ákvarðar hvaða flokkar fá jöfnunarsæti og í hvaða röð það gerist. En í hvaða kjördæmi er hverju jöfnunarsæti flokksins úthlutað? Hér kemur inn í söguna listi yfir þá tvo menn í hverju kjördæmi hjá hverjum flokki, sem voru næst því að komast inn við úthlutun kjördæmasæta. Hver þeirra hefur ákveðinn atkvæðafjölda frá þeim útreikningi; nú er fundið hlutfall hans af heildarfjölda atkvæða í viðkomandi kjördæmi; og þeir sem eru með hæstu hlutföllin eru settir efst á listann. Fyrir þá flokka sem eru með yfir 5% í kosningunum 2021 lítur þessi listi svona út:

Píratar (P)

  1. Andrés Ingi Jónsson (Reykjavík norður): 6,42%
  2. Magnús Davíð Norðdahl (Norðvestur): 6,27%
  3. Álfheiður Eymarsdóttir (Suður): 5,59%
  4. Arndís Anna K. Gunnarsdóttir (Reykjavík suður): 5,46%
  5. Einar Brynjólfsson (Norðaustur): 5,34%
  6. Lenya Rún Taha Karim (Reykjavík norður): 4,28%
  7. Gísli Rafn Ólafsson (Suðvestur): 4,14%
  8. Halldór Auðar Svansson (Reykjavík suður): 3,64%
  9. Gunnar Ingiberg Guðmundsson (Norðvestur): 3,13%
  10. Lind Draumland Völundardóttir (Suður): 2,79%
  11. Eva Sjöfn Helgadóttir (Suðvestur): 2,76%
  12. Hrafndís Bára Einarsdóttir (Norðaustur): 2,67%

Framsóknarflokkurinn (B)

  1. Friðrik Már Sigurðsson (Norðvestur): 6,45%
  2. Helgi Héðinsson (Norðaustur): 6,39%
  3. Brynja Dan Gunnarsdóttir (Reykjavík norður): 6,16%
  4. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (Suður): 5,98%
  5. Aðalsteinn Haukur Sverrisson (Reykjavík suður): 5,74%
  6. Iða Marsibil Jónsdóttir (Norðvestur): 5,16%
  7. Halldóra K. Hauksdóttir (Norðaustur): 5,11%
  8. Anna Karen Svövudóttir (Suðvestur): 4,85%
  9. Njáll Ragnarsson (Suður): 4,79%
  10. Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir (Reykjavík norður): 4,11%
  11. Sigrún Elsa Smáradóttir (Reykjavík suður): 3,83%
  12. Kristín Hermannsdóttir (Suðvestur): 3,63%

Viðreisn (C)

  1. Guðbrandur Einarsson (Suður): 6,21%
  2. Guðmundur Gunnarsson (Norðvestur): 6,16%
  3. Sigmar Guðmundsson (Suðvestur): 5,7%
  4. Eiríkur Björn Björgvinsson (Norðaustur): 5,37%
  5. Daði Már Kristófersson (Reykjavík suður): 4,32%
  6. Jón Steindór Valdimarsson (Reykjavík norður): 3,85%
  7. Elín Anna Gísladóttir (Suðvestur): 3,8%
  8. Þórunn Wolfram Pétursdóttir (Suður): 3,1%
  9. Bjarney Bjarnadóttir (Norðvestur): 3,08%
  10. María Rut Kristinsdóttir (Reykjavík suður): 2,88%
  11. Sigríður Ólafsdóttir (Norðaustur): 2,68%
  12. Katrín S. J. Steingrímsdóttir (Reykjavík norður): 2,57%

Sjálfstæðisflokkurinn (D)

  1. Teitur Björn Einarsson (Norðvestur): 7,53%
  2. Brynjar Þór Níelsson (Reykjavík norður): 6,98%
  3. Berglind Harpa Svavarsdóttir (Norðaustur): 6,16%
  4. Björgvin Jóhannesson (Suður): 6,14%
  5. Arnar Þór Jónsson (Suðvestur): 6,05%
  6. Friðjón R Friðjónsson (Reykjavík suður): 5,7%
  7. Sigríður Elín Sigurðardóttir (Norðvestur): 5,65%
  8. Kjartan Magnússon (Reykjavík norður): 5,23%
  9. Sigþrúður Ármann (Suðvestur): 5,04%
  10. Ingveldur Anna Sigurðardóttir (Suður): 4,91%
  11. Ragnar Sigurðsson (Norðaustur): 4,62%
  12. Ágústa Guðmundsdóttir (Reykjavík suður): 4,56%

Samfylkingin (S)

  1. Valgarður Lyngdal Jónsson (Norðvestur): 6,93%
  2. Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Reykjavík suður): 6,65%
  3. Jóhann Páll Jóhannsson (Reykjavík norður): 6,3%
  4. Hilda Jana Gísladóttir (Norðaustur): 5,24%
  5. Viðar Eggertsson (Reykjavík suður): 4,43%
  6. Dagbjört Hákonardóttir (Reykjavík norður): 4,2%
  7. Guðmundur Andri Thorsson (Suðvestur): 4,05%
  8. Viktor Stefán Pálsson (Suður): 3,82%
  9. Eydís Ásbjörnsdóttir (Norðaustur): 3,49%
  10. Jónína Björg Magnúsdóttir (Norðvestur): 3,46%
  11. Inga Björk Margrétar Bjarnad. (Suðvestur): 2,7%
  12. Guðný Birna Guðmundsdóttir (Suður): 2,55%

Flokkur fólksins (F)

  1. Georg Eiður Arnarson (Suður): 6,46%
  2. Wilhelm Wessman (Reykjavík suður): 4,46%
  3. Þórunn Björg Bjarnadóttir (Norðvestur): 4,38%
  4. Elín Íris Fanndal (Suður): 4,3%
  5. Katrín Sif Árnadóttir (Norðaustur): 4,3%
  6. Kolbrún Baldursdóttir (Reykjavík norður): 3,84%
  7. Jónína Björk Óskarsdóttir (Suðvestur): 3,78%
  8. Helga Þórðardóttir (Reykjavík suður): 2,98%
  9. Hermann Jónsson Bragason (Norðvestur): 2,92%
  10. Brynjólfur Ingvarsson (Norðaustur): 2,87%
  11. Rúnar Sigurjónsson (Reykjavík norður): 2,56%
  12. Sigurður Tyrfingsson (Suðvestur): 2,52%

Miðflokkurinn (M)

  1. Bergþór Ólason (Norðvestur): 7,41%
  2. Karl Gauti Hjaltason (Suðvestur): 4,46%
  3. Anna Kolbrún Árnadóttir (Norðaustur): 4,44%
  4. Fjóla Hrund Björnsdóttir (Reykjavík suður): 4,1%
  5. Erna Bjarnadóttir (Suður): 3,71%
  6. Sigurður Páll Jónsson (Norðvestur): 3,7%
  7. Vilborg Þóranna Bergmann Kristjánsdóttir (Reykjavík norður): 3,51%
  8. Þorgrímur Sigmundsson (Norðaustur): 2,96%
  9. Heiðbrá Ólafsdóttir (Suður): 2,48%
  10. Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir (Suðvestur): 2,23%
  11. Samsidanith Chan (Reykjavík suður): 2,05%
  12. Tómas Ellert Tómasson (Reykjavík norður): 1,76%

Vinstri græn (V)

  1. Hólmfríður Árnadóttir (Suður): 7,4%
  2. Orri Páll Jóhannsson (Reykjavík suður): 7,34%
  3. Jódís Skúladóttir (Norðaustur): 6,46%
  4. Una Hildardóttir (Suðvestur): 6,05%
  5. Lilja Rafney Magnúsdóttir (Norðvestur): 5,73%
  6. Eva Dögg Davíðsdóttir (Reykjavík norður): 5,31%
  7. Daníel E. Arnarsson (Reykjavík suður): 4,89%
  8. Óli Halldórsson (Norðaustur): 4,31%
  9. Ólafur Þór Gunnarsson (Suðvestur): 4,03%
  10. René Biasone (Reykjavík norður): 3,98%
  11. Sigríður Gísladóttir (Norðvestur): 3,82%
  12. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir (Suður): 3,7%

Lista af þessu tagi má nefna úthlutunarskrá.

Sætunum útdeilt

Nú má loks útdeila jöfnunarsætunum. Þetta er gert þannig:

Litið er á landstölulistann. Fyrir þann flokk, sem næstur er í röðinni á honum, er fundinn efsti maður á úthlutunarlistanum sem hvorki (a) hefur þegar verið úthlutað sæti (b) var í framboði í kjördæmi, þar sem þegar er búið að úthluta öllum tiltækum jöfnunarsætum. Þetta er endurtekið þar til búið er að útdeila öllum níu jöfnunarsætunum.

Þegar þessari reglu er beitt á fyrirliggjandi niðurstöður þingkosninganna 2021 fæst eftirfarandi listi yfir uppbótarþingmenn:

  1. Andrés Ingi Jónsson (P, Reykjavík norður)
  2. Guðbrandur Einarsson (C, Suður)
  3. Bergþór Ólason (M, Norðvestur)
  4. Orri Páll Jóhannsson (V, Reykjavík suður)
  5. Arndís Anna K. Gunnarsdóttir (P, Reykjavík suður)
  6. Sigmar Guðmundsson (C, Suðvestur)
  7. Jóhann Páll Jóhannsson (S, Reykjavík norður)
  8. Jódís Skúladóttir (V, Norðaustur)
  9. Gísli Rafn Ólafsson (P, Suðvestur)

Til nánari upplýsingar skal vísað til kosningalaganna, XVI. kafla (og sér í lagi 108. greinar), en þau má m.a. finna hér.