Ert þú með ábendingu?

Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á frettir@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is

Aðalmeðferð í Birnumálinu

Umsjón: Skúli Halldórsson (sh@mbl.is)

Síðasti dagur aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Møller Olsen.

mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Styrkur hans er ótrúlegur, sorg þeirra er djúp

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar Olsen, segir að rannsakendum málsins „hefði verið í lófa lagið að setjast upp í eitt stykki Kia Rio“ og keyra Suðurstrandarveg til að rannsaka málið betur. Hann segir að vafi um keyrslu bílsins um Suðurstrandarveg og hversu margir kílómetrar séu óútskyrðir verði að vera skýrður ákærða í hag en ákæruvaldinu í óhag.

Páll tekur að lokum fram að það sé ekki verjandi sem krefjist sýknu, heldur ákærði í málinu.

„Ég skil ekki hvernig faðir brotaþola getur mætt hér í dómsal, keikur [...] Styrkur hans er ótrúlegur, sorg þeirra er djúp,“ sagði Páll áður en hann lagði málið í dóm.

Dómþingi hefur nú verið slitið og blaðamenn mbl.is kveðja að sinni héðan úr Héraðsdómi Reykjaness.

Gott ef túlkur hefði verið viðstaddur

Kolbrún segir að það hefði verið gott ef löggiltur grænlenskur túlkur hefði verið viðstaddur skýrslutökurnar. Hins vegar sé enginn löggiltur grænlenskumælandi túlkur á landinu. Ákærði talaði þó dönsku og ensku mjög vel og hefði ekki gert athugasemdir við þetta.

Lögmæti aðgerðanna hafi ekki þýðingu

Kolbrún segir að í framburði matsmannsins Wiesbrock hafi komið fram að árásarmaðurinn hafi líklega beitt bæði vinstri og hægri hendi við árásina. Bæði Nikolaj og Thomas hafi verið með svipaða og litla áverka á hnúum. Algjörlega ómögulegt hafi þó verið að segja til um orsakir þeirra.

Það sé þá mjög miður að ekki hafi náðst í vitnið Ove Heilmann Petersen. Í síðari skýrslutöku hans, sem hann hafi sjálfur óskað eftir, hafi hann tjáð lögreglu að hann hafi greint Thomasi frá því að skipinu hefði verið snúið við, en áður hafði verjandinn sagt að ekki væri hönd á það festandi hverju Ove hefði greint frá við þessa skýrslutöku.

Kolbrún segir lögmæti aðgerða lögreglu um borð í skipinu ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins. Skipstjórinn hafi sjálfur tekið ákvörðun um að snúa skipinu áður en lögreglan kom um borð. Ákvörðunin hafi því verið hans og því sé ekkert því til fyrirstöðu að sakfella fyrir fíkniefnalagabrotið í síðari ákæruliðnum.

Segir sannanir skorta gegn Olsen

Thomas Fredrik Møller Olsen er viðkvæmur, handtakan var honum þungbær og ástæða reikuls framburðar hans er ölvun og hræðsla. Þetta sagði Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn.
Meira »

Fullkomin og mekanísk þvingun

Því næst víkur Páll máli sínu að síðari lið ákærunnar, þar sem Thomasi er gefið að sök að hafa smyglað til landsins fíkniefnum.

Segir hann Thomas hafa verið færðan nauðugan til Íslands, samkvæmt fyrirmælum íslenskra yfirvalda. Við það að skipið hafi komið inn í lögsögu Íslands hafi brotið fullframist. Ómöguleiki hafi því ráðið því að hann kom til landsins með fíkniefnin.

„Uppi er fullkomin og mekanísk þvingun sem á sér stað og tíma þar sem fullframningastigi hefur ekki verið náð, en veldur því að svo verði.“

Segir hann skorta ásetning eða gáleysi af hálfu Thomasar í þessum efnum, en ásetningur er skilyrði þess að refsað sé fyrir vörslu fíkniefna samkvæmt almennum hegningarlögum.

Málflutningi Páls er nú lokið að sinni og við taka andsvör ákæruvalds.

Blasi við að sýkna verði Thomas

Páll segir að lokum að slíkur vafi sé uppi í málinu að það blasi við að sýkna verði Thomas Olsen af ákærulið eitt, sem lýtur að manndrápi.

Hlédrægur og feiminn

Páll segir ákærða ekki geta játað það við yfirheyrslur sem hann hafi ekki gert, þrátt fyrir mikinn þrýsting. Ljóst sé að hann sé ekki harðgerður drengur, heldur hlédrægur og feiminn.

Tekur hann fram að Thomas sé ekki vitlaus og hann viti það hversu skaðlegt það sé fyrir hann að tjá sig ekki um ferðir sínar á milli klukkan sjö og ellefu. Engu að síður geri hann það.

Páll segir að við yfirheyrslur hafi ekki fundist góðir grænlenskir túlkar. Þær hafi farið fram á dönsku og ensku og það sé alls kostar óæskilegt. Góðir túlkar þekki líkamstjáningu og tungumál viðkomandi vel og geti því þýtt betur það sem fram fari.

Hafi sagt satt og rétt frá

Páll segir að ákæruvaldið hafi ákveðið að sveipa minnisleysi annars mannanna græsku, en útskýra minnisleysi hins með áfengisneyslu.

Segir hann Thomas hafa sagt möglunarlaust satt og rétt frá þegar borið var undir hann ásökun um fíkniefnasmygl. Þá hafi hann náð í fíkniefnin og látið þau þangað sem allir gátu séð þau, þrátt fyrir að vita væntanlega af því að með því myndi hann missa vinnuna auk fleiri slæmra afleiðinga.

„Allur úti í klórförum“

Páll segir að það að þekjufrumur Thomasar hafi fundist á skóm Birnu sanni í raun ekki neitt. Þeir hafi jú verið í bílnum.

Þá sé ekkert skrýtið að fullt af blóði finnist á fötum í aftursæti bílsins, þar sem fullt af blóði hafi fundist í aftursæti bílsins, eins og hann orðar það.

Segir hann að viðurkennt sé að stór hluti fata Thomasar sem hann klæddist þetta kvöld hafi fundist. Á þeim hafi ekkert blóð fundist.

Verjandinn reifar þá skýringu Thomasar á klórförum á líkama sínum að hann klóri sig í svefni. Bendir hann á að ekki hafi verið rannsakað síðar, á meðan Thomas sé í varðhaldi, hvort önnur klórför komi fram.

Lýsir hann þá því þegar hann var viðstaddur læknisrannsókn á Thomasi fyrr á árinu.

„Þá sá verjandinn það með eigin augum að hann var allur úti í klórförum. Þá var hann búinn að sitja í gæsluvarðhaldi vikum saman, í einangrun,“ sagði verjandinn.

Afstaða lögreglunnar afdráttarlaus

Páll segir myndbandið af ferðum bílsins við golfskálann ekki hafa verið rannsakað nægilega vel. Ekki hafi verið farið í þá vinnu að leika ferð bílsins eftir við sömu birtuskilyrði til að sjá hvort einhver ætti að sjást í hægra framsæti bílsins eður ei.

Þá segir hann að ekki verði hjá því komist að minnast aftur á að afstaða lögreglunnar hafi snúið afdráttarlaus gagnvart sök ákærða frá upphafi. Bendir hann á ýmis atriði við rannsóknina þar sem aðeins hlutur Thomasar var rannsakaður en ekki Nikolaj.

Páll segir ljóst að fingrafarasérfræðingur lögreglunnar hafi sagt fingrafarið á ökuskírteini Birnu ónothæft. Norsku sérfræðingarnir hafi aðeins fundið ellefu sameiginleg einkenni með fingrafarinu og fingrafari hægri vísifingurs Thomasar, en ekki tólf eins og jafnan sé gert að skilyrði. Ekki séu fordæmi fyrir því á Íslandi að styðjast við færri en tólf einkenni, að honum vitandi.

Slegin með vinstri en Thomas rétthentur

Páll segist munu leyfa sér að benda á annmarka á rannsókninni. Ljóst sé að brotaþoli sé slegin tveimur höggum með vinstri hendi árásarmannsins í hægra aftursæti bílsins. Ákærði sé þó rétthentur og með skemmdir í vinstri öxl, sem útiloki þá ekki neitt.

Segir hann blóðferla þá ekki benda til þess að árásin hafi átt sér stað á bryggjunni við Hafnarfjarðarhöfn, eins og ákæruvaldið hafi haldið fram. Vitnisburður dómkvadda matsmannsins Urs Wiesbrock hafi hrakið þessa kenningu.

Blóðferlar sýni þá að högg sé veitt eftir að brotaþola byrji að blæða. Blóð eigi því að hafa farið á hendi árásarmannsins. Ekkert einasta blóðsmit eða -kám sé hins vegar í framsætinu, á stýri eða á gírstöng bílsins.

Ekki sé þá hægt að sjá að bíllinn hreyfist við meinta árás á bryggjunni. Hægt væri að leika verknaðinn eftir til að athuga hvort hann ætti að hreyfast, en það hefði ekki verið gert.

Kenningin um Vogsós „ólíkleg“

Verjandinn segir ekkert liggja fyrir í málinu hvað hafi átt sér stað við Suðurstrandarveg frá klukkan 7 til 11 þennan laugardagsmorgun. Ekkert hafi komið fram um að Thomas þekki svæðið en samt hafi hann átt að keyra þennan veg í myrkri án nokkurrar aðstoðar frá GPS-tæki.

Kenningin um Vogsós verði þá að teljast ólíkleg. Áin sé vatnslítil og vísar þá Páll til framburðar dr. Mario Darok fyrr í dag, sem sagði að líklega hefði Birna drukknað í sjó en í ferskvatni. Fall frá Óseyrarbrú hefði þá haft í för með sér áverka á líkinu, sem ekki hafi fundist á því.

Segir hann að látið sé undir höfuð leggjast að greina upplýsingar um ferðir bíla um Suðurstrandarveg.

„Ef horft er á tímabilið á milli 7.50 og 9.10 þennan morgun, er ljóst að aðeins einn bíll fer þarna um, klukkan 8.30.“

Miðað við kenningunni ætti þetta að vera ákærði. Hins vegar hefði engin tilraun verið gerð til að staðfesta þá kenningu með farsímagögnum.

Segir hann svo að ef ákærði hefði keyrt þessa leið þá hefði hann alltaf talist sem tveir bílar, annars vegar á leið suður og hins vegar aftur norður. Hins vegar sé aðeins einn bíll talinn. Því megi útiloka Selvog hvað ákæra varði.

Texti ákærunnar óljós

Verjandinn segir að leiða þurfi líkur að sakfellingu ákærða á lögmætan hátt. Segir hann að sjónarmið um notkun sönnunargagna sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti séu mismunandi eftir löndum. Aldrei áður á Íslandi hafi þó komið til dóms mál eins og þetta, þar sem sakborningur hafi verið sóttur út fyrir lögsögu lögregluyfirvalda.

Segir hann verknaðarlýsingu fyrri ákæruliðs þá ekki sérstaklega ítarlega. Ekki sé hlaupið að því að skrifa ákærutexta í máli sem þessu. Hins vegar sé erfitt að verjast svo óljósum ákærutexta og því sé ákærði í þeirri stöðu að þurfa að afsanna óljósar lýsingar ákæruvaldsins.

Segir handtökuna hafa verið ólöglega

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar Fredrik Møller Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn, krefst sýknu af báðum ákæruliðum sem umbjóðandi hans er sakaður um. Hann segir að handtaka Møller Olsen hafi verið ólögleg.
Meira »

Vísar til fræðigreinar í hafrétti

Verjandinn segir að ólögmæti aðgerðanna eigi að ógilda málatilbúnað ákæruvaldsins með öllu.

Ótækt sé að lögregluyfirvöld geti farið út fyrir lögsögu sína og sótt þá sem þau telji seka um saknæmt athæfi.

Segir hann dr. Bjarna Má Magnússon, virtan fræðimann í hafrétti, hafa ritað sérstaka fræðigrein þar sem fullyrt sé að aðgerðin hafi verið ólögmæt. Í stað mikilla málalenginga og tilvitnana segist hann þá vísa til greinarinnar í heild.