Má ég vera með?

Ég var 20 ára gömul þegar ég tók kúrs í kynjafræði í Háskóla Íslands og varð fyrir uppljómun þegar ég las um samtvinnun (e. intersecting oppression) og lífsreynslu svartra kvenna. Fyrir þann tíma hafði verið einhver flækja innra með mér sem ég átti erfitt með að setja fingur á um hvað snérist, hvað þá að skýra hana út fyrir öðrum. Þegar ég kynntist hugmyndum svartra femínista á borð við bell hooks, Patriciu Hill Collins og Kimberlé Crenshaw áttaði ég mig á því að mín innri átök voru til komin vegna þess að ég var fötluð kona. Í daglegu lífi mínu rekast þessar tvær staðalmyndir sem búnar eru til af samfélaginu harkalega á og hlutverkaleikurinn verður fyrir vikið flókinn. Sem kona er ég gerð að kynferðislegu viðfangi en sem fötluð manneskja er ég álitin kynlaus. Konur berjast fyrir því að þurfa ekki að mála sig frekar en þær vilja en ég fæ hrós fyrir að vera dugleg ef ég geri það. Að ég sé nú meiri skvísan fyrir það eitt að hafa sett á mig varalit, í tóni sem 6 ára barn myndi fá fyrir að stelast í snyrtitösku móður sinnar. Það er ekki hægt að lýsa því brjálæðislega valdaleysi sem felst í því að vera á sama tíma álitinn gagnslaus í kynferðismálum og kyngerður hlutur.

Nýleg rannsókn sem unnin var við Háskóla Íslands í samstarfi við erlenda háskóla sýndi að fatlaðar konur verða í meira mæli fyrir ofbeldi og valdbeitingu en bæði aðrar konur sem og fatlaðir karlar. Þá var ofbeldið frekar þaggað niður og þær fengu síður aðstoð við að takast á við afleiðingar þess og sækja rétt sinn. Þetta staðfesti líklega þá tilfinningu sem margar fatlaðar konur upplifa. Langanir og skoðanir þeirra eru virtar að vettugi, þær barngerðar, þvingaðar til þess að gera hluti sem þær vilja ekki og upplifa kúgun á mörgum sviðum af hálfu kerfisins, aðstandenda og samfélagsins í heild.

Á Íslandi hefur hingað til reynst erfitt fyrir fatlaðar konur að taka þátt í jafnréttisbaráttunni. Viðburðir eru haldnir á óaðgengilegum stöðum og í umræðunni er ekki gert ráð fyrir margbreytilega kvenna. Það á ekki að þurfa að vera fötluð kona í herberginu þar sem stefnan er mótuð til þess að femínistar muni eftir tilvist þeirra, ekki frekar en það á að þurfa að vera kona í herberginu til þess karlar muni eftir tilvist þeirra.

Það er ósegjanlega erfitt fyrir fatlaðar konur að þurfa að gagnrýna kvenréttindabaráttuna, en hlutirnir breytast ekki nema á þá sé bent. Femínisminn verður ekki að beittu tóli í baráttunni fyrir jafnara samfélagi fyrr en hann tekur allar konur inn í mengið óháð kynhneigð, kyngervi, kynþætti eða fötlun. Þess vegna er mikilvægt að fatlaðar konur fái að taka þátt og haldi áfram að taka þátt í lýðræðissamfélaginu. Björninn verður ekki unninn fyrr en en allar konur leggja sitt á vogarskálarnar.

Til hamingju með afmælið Íslendingar!

mbl.is