Neil Armstrong: Mönnuð Marsför kann að verða auðveldari en fyrsta tunglferðin

Neil Armstrong ávarpar ráðstefnuna í Kúala Lúmpúr í dag.
Neil Armstrong ávarpar ráðstefnuna í Kúala Lúmpúr í dag. AP

Neil Armstrong, sem fyrstur manna steig fæti á tunglið, sagði í dag að mönnuð för til Mars verði líklega ekki farin næstu 20 árin, en hún kunni að verða auðveldari en fyrsta mannaða ferðin til tunglsins hafi verið 1969. Sagði hann að þróa þyrfti fullkomnari geimför og betri geimgeislavarnir áður en hægt verði að senda menn til Mars.

„Það eru áreiðanlega tuttugu ár þangað til það verður,“ sagði Armstrong á ráðstefnu í Kúala Lúmpúr í Malasíu. „Það verður kostnaðarsamt, krefst mikillar orku og flókins geimskips. En mig grunar að jafnvel þótt spurningarnar séu margar og erfiðar muni þær ekki reynast eins margar og þær sem við stóðum frammi fyrir þegar við hófum Apollo geimferðaáætlunina árið 1961.“

Armstrong er 75 ára. Hann kemur sjaldan fram opinberlega og veitir fá viðtöl. Hann hætti þátttöku í geimferðaáætluninni 1971 og gerðist kennari í flugverkfræði við Háskólann í Cincinnati í Ohio.

Hann sagðist í dag hafa orðið ákaflega undrandi á því að för Apollos 11. til tunglsins 1969 skyldi heppnast. Það hafi verið dásamleg tilfinning á stíga fæti á tunglið, en um leið hafi það komið sér „fullkomlega á óvart að okkur skyldi takast þetta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert