Hjartasjúklingar gætu innan tíðar fengið skammta af dökku súkkulaði ef fyrirhuguð lyfjarannsókn fer af stað. Roger Corder er prófessor við William Harvey rannsóknarstofnunina í London og hefur hann sótt um leyfi til að framkvæma rannsóknir á fjörtíu hjarta- og kransæðasjúklingum.
Samkvæmt fréttavef BBC geta sumar gerðir af súkkulaði unnið gegn hjartasjúkdómum, of háum blóðþrýstingi og hjartaáföllum.
Sérfræðingar staðhæfa þó að vega þurfi kosti súkkulaðsins upp á móti neikvæðum áhrifum sykurs og fituinnhalds. „Það ætti ekki að nota þessa fyrirhuguðu rannsókn sem afsökun fyrir ofáti á súkkulaði um páskana,” sagði Corder.
„Það er trúlega rangt að allt dökkt súkkulaði sé hollt,” sagði Corder jafnframt. „Ég tel að það komi til með að taka í það minnsta eitt ár áður en við komumst að niðurstöðu um hvaða gerðir af dökku súkkulaði eru bestar,” sagði hann.
Rannsókn Corders mun beinast að svokölluðum flavonoids sem eru antioxíð og hvort þeir geti bætt líðan hjartasjúklinga. Flavonoida er ekki einungis að finna í súkkulaði, þá er einnig að finna í ávöxtum, grænmeti, rauðvíni og tei.
Dr. Charmaine Griffiths hjá bresku Hjartaverndinni segir, að það sé hollara að borða fimm skammta af ávöxtum og grænmeti til að fá hið hjartaverndandi antioxíð.
Prófessor Corder hefur nú þegar tengt neyslu rauðvíns, sem ræktað er í ákveðnum vínekrum á Sardiníu, við langlífi. En dr. Griffiths segir að það séu vísbendingar um að lítið magn af dökku súkkulaði gæti haft góð áhrif á blóðrásina til skamms tíma.
„En það er mikilvægt að átta sig á því að súkkulaði er oftar hluti af vandamálum hjartasjúklinga en sjaldnast hluti af lausninni. Við viljum alls ekki leggja til að fólk borði aldrei súkkulaði en það eru til mun betri leiðir til að passa upp á hjartað,” sagði dr. Griffiths.