Nú getur svo farið að sala og dreifing á Windows Vista stýrikerfinu frá Microsoft frestist um eitt ár í viðbót, þar sem rannsókn fyrirtækisins Gartner á því hefur leitt til þeirra niðurstöðu að ýmsar brotalamir séu á stýrikerfinu. Niðurstöðurnar voru sendar fyrirtækjum og þar segir að stýrikerfið sé of flókið til þess að hægt verði að selja það fyrirtækjum í nóvember eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.
Talsmaður Microsoft segir fyrirtækið ekki sammála úttekt Gartner og að engin breyting hafi verið gerð á markaðsáætlunum. Vista er uppfærsla á Windows stýrikerfinu sem er í um 90% allra tölva í heiminum. Nýjasta útgáfa stýrikerfisins er Windows XP sem er nú orðin fimm ára gömul.
Microsoft hefur tvisvar sinnum frestað sölu og dreifingu á Vista. Gartner segir líklegt að því verði enn frestað þar til allt hefur verið lagfært. CNN greinir frá þessu.