General Motors ætlar að framleiða vetnisbíla eftir nokkur ár

Þróun vetnisfarartækja hefur verið ör á undanförnum árum og er nú svo komið að General Motors hefur lýst því yfir, að það sé markmið þeirra að framleiða vetnisbíla eftir 5-7 ár sem verði samkeppnishæfir við hefðbundna bíla í gæðum, drægni, líftíma og kostnaði.

Á undanförnum árum hefur Íslensk NýOrka ásamt samstarfsaðilum unnið að fjölbreyttum rannsókna- og sýniverkefnum um nýtingu vetnis. Áhersla hefur verið lögð á nýtingu vetnis í samgöngum og í því skyni hefur NýOrka byggt upp tengslanet við helstu bifreiðaframleiðendur heims, að því er segir í fréttatilkynningu. Efnarafalar eru 14 sinnum nýtnari nú en var fyrir 7 árum, samkvæmt fréttatilkynningu. Líftími þeirra er kominn upp fyrir 3500 klukkustundir og drægnin á hverri vetnisfyllingu er komin upp í 450 kílómetra.

„Hjá GM eru menn því sannfærðir um að ef eftirspurn verði nægjanleg til að fjöldaframleiða vetnisbíla, þ.e. fleiri en 500.000 bíla á ári, þá verði hægt að framleiða vetnisbíla árið 2010 sem að fullu verði samkeppnishæfir á öllum sviðum við hefðbundna bíla. Til að svo geti orðið þarf að auka við vetnisdreifikerfi á lykilkjarnasvæðum. Ísland getur orðið eitt slíkra svæða.

Því hefur GM ákveðið að kynna fyrir alþjóðlegum fjölmiðlum þá möguleika sem bjóðast til vetnisvinnslu á mismunandi stöðum í heiminum. Með þetta að leiðarljósi eru fulltrúar GM mættir hingað til lands með fjölda erlendra blaðamanna til að skoða hvað Íslendingar eru að gera varðandi nýtingu jarðhita og vinnslu vetnis með raforku frá jarðvarmavirkjunum. Enginn vafi leikur á því, að frumkvæði Íslendinga í tilraunum við að nýta vetni í almenningssamgöngum hefur dregið athygli þeirra að Íslandi.

GM fer lofsamlegum orðum um stefnu stjórnvalda á Íslandi við að nýta innlenda vistvænna orkugjafa og nýtingu þeirra til vetnisframleiðslu. Hvergi í heiminum séu jafn góðar aðstæður til að tengja saman endurnýjanlega orku og vetnisvinnslu eins og í samfélaginu á Íslandi. Stefna GM er að mynda tengslanet við fyrirtæki og stjórnvöld, og með það að leiðarljósi er fyrirtækið nú að heimsækja Ísland. Samhliða kynningunni sýnir GM hér nýjustu tegundina af vetnisbíl fyrirtækisins, HydroGen3. Verður bílinn m.a. sérstaklega kynntur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, í dag.

Íslensk NýOrka og GM stefna að aukinni samvinnu í náinni framtíð með það að markmiði að Ísland geti orðið eitt af fyrstu kynningarsvæðum fyrir GM vetnisfarartæki," að því er segir í fréttatilkynningu sem kynnt var á blaðamannafundi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert