Máltaka barns skrásett

Deb Roy, prófessor við Massachusetts Institute of Technology háskólann í Bandaríkjunum, ætlar að nota kvikmyndatökuvélar til að fylgjast með þroska sonar síns. Tilgangurinn er að rannsaka máltöku barna og ætlar Roy að safna saman allt að 400.000 klukkustundum af myndefni.

Ellefu kvikmyndatökuvélum og hljóðnemum hefur verið komið fyrir á heimili Roy og er fylgst með heimilishaldinu frá átta að morgni til tíu að kvöldi. Enn er ekki með fullu vitað hvernig börn þroska mál sitt. Talið er að samskipti við foreldra hafi þar mikið að segja, en vísindamenn telja ómögulegt að það skýri hinn hraða málþroska hjá flestum börnum. Hingað til hafa ekki verið gerðar nægilega ítarlegar rannsóknir á börnum í sínu umhverfi svo að hægt sé að meta utanaðkomandi áhrif.

Tilrauninni hefur verið líkt við þættina um stóra bróður sem hafa notið vinsælda um allan heim og gæti einhverjum þótt tilraunin óhugnanleg. Upptökurnar munu þó fæstar nokkurn tíma koma fyrir sjónir almennings. Gífurlegt magn efnis verður tekið upp þar til tilrauninni lýkur þegar drengurinn verður þriggja ára. Þau 350 gígabæti sem myndrituð eru daglega eru send í geymslukerfi við MIT háskólann sem geymt getur eitt petabæti, eða um eina milljón gígabæta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert