Nóbelsverðlaunahafi segir að tvöfalda verði matvælaframleiðslu

Fjölgun mannkyns kallar á nýjar aðferðir
Fjölgun mannkyns kallar á nýjar aðferðir Reuters

Nóbelsverðlaunahafinn Norman Borlaug segir að tvöfalda verði matvælaframleiðslu í heiminum á næstu fimmtíu árum svo hægt verði að mæta mikilli fólksfjölgun í Asíu. Þá segir Borlaug, að þótt hungur sé enn víða í Asíu og Suður-Ameríku, þá sé mestu áskorunina að finna í Afríku.

Norman Borlaug, sem er bandarískur landbúnaðarfræðingur, hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1970 fyrir framlag sitt við aukningu landbúnaðarframleiðslu, en hann þróaði sjúkdómaþolið hveitafbrigði sem gjörbylti hveitiframleiðslu í Mexíkó, Pakistan og á Indlandi.

Borlaug sagði á ráðstefnu hjá Asíska þróunarbankanum, að ráðstafana sé þörf vegna takmarkaðra vatnsbirgða og nýrra uppskerusjúkdóma í heiminum, benti sérstaklega á „stilk-ryð“, sjúkdóm, sem herjað hefur á hveiti í A-Afríku, og sagði að aðeins sé spurning um tíma þar til sjúkdómurinn berst til Asíu.

Eftirspurn eftir mat, dýrafóðri og trefjum mun að líkindum tvöfaldast fyrir miðja þessa öld eftir því sem þjóðir stækka og efnast meðan að ræktanlegt land mun minnka um fimmtung. Byltingar er einnig þörf á Indlandi og nauðsynlegt að þróa þurrkþolin afbrigði nytjaplantna. Lagði Borlaug áherslu á líftækni og önnur „ný vísinda-tæki“ sem lausnir við vandanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert