Vísindamenn hefur lengi grunað, að HIV-veiran hafi fyrst borist í menn úr öpum og í vísindagrein, sem birtist í gær, kemur fram, að simpansar í Kamerún í Afríku séu náttúrulegir geymsluhýslar veirunnar, sem veldur alnæmi.
Greinin birtist í tímaritinu Science og þar kemur fram, að veiran SIVcpz hafi fundist í simpönsum í dýragörðum. Þessi veira er svipuð VIH-1 veirunni, sem alnæmisfaraldurinn er rakinn til.
Vísindamennirnir fóru til Kamerún og rannsökuðu simpansa þar og fundu SIVcpz í saur apanna. Talið er að veiran hafi upphaflega borist í menn fyrir aldarfjórðungi þegar þeir lögðu sér apakjöt til munns.
Vísindamennirnir, sem eru frá Alabamaháskóla í Bandaríkjunum, Montpellier í Frakklandi og Nottingham í Bretlandi, segja í greininni að þessar niðurstöður, ásamt fleiri rannsóknum, dragi í fyrsta skipti upp skýra mynd af uppruna HIV-1 veirunnar og alnæmisfaraldursins.
Þeir segja, að mikilvægt sé að skilja hvernig veiran barst frá þessu svæði til Kinshasa, þar sem hennar varð fyrst vart, um 1000 km leið.
Til þessa hafa 26 milljónir manna látist af völdum alnæmis og 40 milljónir til viðbótar hafa smitast, flestir í Afríku. Engin lækning eða bóluefni er til við veirunni.