Netgæði Íslendinga eru langt frá því að vera með þeim mestu, samkvæmt nýrri skýrslu sem nýsjálenska stofnunin InternetNZ hefur gert um netnotkun í OECD löndunum. Ísland lendir í 13. sæti á listanum eða í C flokki, ásamt Spáni, Slóvakíu, Danmörku og fleiri löndum. Í könnuninni eru teknir saman þættir á borð við útbreiðslu nettenginga, verð og hraða. Ísland er í fyrsta sæti á lista OECD en þar er útbreiðsla eini þátturinn sem mældur er.
Útbreiðsla nettenginga er mest á Íslandi en 26,7% landsmanna eru skráðir fyrir nettengingum, langflestir þeirra, eða 97%, hafa ADSL tengingu við netið og tróna Íslendingar einnig í fyrsta sætinu þar.
Heildareinkunnin er þó ekki góð, því hátt verð, takmarkaður hraði og gjaldtaka vegna niðurhals erlendis frá lækka gæði tenginganna mikið að mati InternetNZ. Ísland lendir því í C flokki og 13. sæti yfir gæði netframboðs í löndunum 26 þar sem könnunin var gerð.
Svíþjóð er eina landið sem hlýtur A einkunn hjá stofnuninni. en Holland, Noregur, Kanada, Þýskaland og Bandaríkin fá öll einkunnina B. Netþjónusta í Bretlandi þykir slæm því Bretar fá lægstu einkunn eða D þar sem þjónusta er hvað verst, ásamt Sviss, Ungverjalandi, Póllandi, Mexíkó og fleiri löndum.